Harry Maguire lék allan leikinn í fræknum sigri Manchester United á útivelli gegn toppliði Arsenal í ensku úrvalsdeildinni í dag.
Hann var í sjöunda himni að leikslokum og hrósaði Matheus Cunha í hástert eftir að hann kom inn af bekknum og skoraði sigurmarkið á Emirates.
Þetta var annar leikur Man Utd undir stjórn Michael Carrick en Cunha kom einnig inn af bekknum í fyrsta leiknum gegn Manchester City og gaf stoðsendingu í 2-0 sigri.
„Þetta er risastórt fyrir okkur. Við vitum að við getum alltaf keppt við Manchester City sama hvernig okkur er að ganga á tímabilinu. Þetta hefði getað verið bara einn leikur sem við spiluðum vel en í dag sýndum við að það er ekki tilfellið," sagði Maguire.
„Þetta var stórkostleg frammistaða og Michael (Carrick) hefur verið frábær frá komu sinni í búningsklefann. Hann kemur inn með mikla orku og allur hópurinn er kominn í vígahug. Fyrir þessa tvo leiki hélt fólk eflaust að við myndum ekki fá mikið úr þeim svo það er magnað að vinna þá báða.
„Við erum með sterkan leikmannahóp sérstaklega núna eftir að leikmenn eru komnir til baka úr Afríkukeppninni. Við getum leyft okkur að byrja með leikmann eins og Matheus (Cunha) á bekknum og ég veit hvernig hann er. Þetta er leikmaður sem vill spila alla leiki, ég get ekki ímyndað mér að hann sé ánægður með að byrja á bekknum en hann er búinn að gera gæfumuninn núna tvo leiki í röð.
„Hann kom inn gegn City og breytti leiknum og svo gerði hann það aftur í dag. Þetta sýnir hversu mikil gæði og breidd við erum með í sóknarlínunni okkar.
„Við erum himinlifandi. Stuðningsmenn eiga þetta skilið."
Athugasemdir



