Kristín Erla Ó. Johnson er búin að skipta úr KR og yfir í Víking R. eftir að hafa alla tíð spilað fyrir uppeldisfélagið sitt.
Kristín Erla er fædd 2002 og á 34 leiki að baki í efstu deild kvenna með KR, en hún hefur verið í háskólanámi í Bandaríkjunum á undanförnum árum og því ekki getað tekið mikinn þátt í Íslandsmótinu.
Kristín leikur með Wake Forest University í bandaríska háskólaboltanum, auk þess að eiga 12 leiki að baki fyrir U16 og U17 landslið Íslands.
Hún er mikilvægur hlekkur í byrjunarliði Wake Forest og spilar þar sem vinstri bakvörður í einu af bestu varnarliðum háskólaboltans.
Kristín lék aðeins sjö leiki með KR í Lengjudeildinni á síðustu leiktíð og fimm leiki í Bestu deildinni 2022. Ekki má því búast við að hún spili mikið í sumar, en hún gæti reynst mikilvæg í þeim leikjum sem hún verður til taks.
Athugasemdir