Brunaútsala hjá Man Utd - Greenwood ætlar að hafna Barcelona - Chelsea reyndi að fá Nunez fyrir tímabilið
banner
   mán 26. september 2022 20:47
Ívan Guðjón Baldursson
Þjóðadeildin: Ítalía í úrslitakeppnina - Magnaður seinni hálfleikur á Wembley
Mynd: EPA
Mynd: Getty Images
Mynd: EPA

Ítalía tryggði sér sæti í úrslitakeppni Þjóðadeildarinnar með góðum sigri á útivelli gegn spútnik liði Ungverjalands í kvöld.


Ítalir mættu inn í leikinn af miklum krafti og sóttu á upphafsmínútunum en náðu ekki að koma boltanum í netið. Þegar leikurinn var búinn að róast niður kom fyrsta mark leiksins eftir slæm varnarmistök Ungverja. Giacomo Raspadori skoraði þá af stuttu færi eftir góða hápressu ásamt Wilfried Gnonto.

Ítalía leiddi í leikhlé og tvöfaldaði Federico Dimarco forystuna eftir fallega sókn í upphafi síðari hálfleiks. Heimamenn færðu sig framar á völlinn tveimur mörkum undir og voru verulega óheppnir að minnka ekki muninn. Gianluigi Donnarumma átti stórleik á milli stanganna og tryggði sigur Ítala.

Ítalir enda riðilinn í efsta sæti með 11 stig og Ungverjar í öðru með 10 stig.

Ungverjaland 0 - 2 Ítalía
0-1 Giacomo Raspadori ('27)
0-2 Federico Dimarco ('52)

Þýskaland endar í þriðja sæti og England í fjórða og mættust þessir sögulegu erkifjendur á Wembley í kvöld.

Sú viðureign reyndist virkilega skemmtileg þar sem nokkuð jafnræði ríkti með liðunum og var staðan markalaus í leikhlé.

Það varð ákveðin veðurbreyting í leikhlé þar sem mörkunum rigndi niður og komust Þjóðverjar í tveggja marka forystu. Ilkay Gündogan skoraði úr vítaspyrnu áður en Kai Havertz tvöfaldaði forystuna eftir undirbúning frá Timo Werner sem kom inn af bekknum í leikhlé.

Englendingar svöruðu hressilega fyrir sig og voru búnir að jafna leikinn átta mínútum síðar. Luke Shaw skoraði á 72. mínútu og jafnaði Mason Mount, sem var nýlega kominn inn af bekknum, þremur mínútum eftir það. 

Harry Kane setti þriðja mark Englendinga úr vítaspyrnu á lokakaflanum en Havertz náði að jafna leikinn á ný eftir markmannsmistök Nick Pope sem var á milli stanganna í fjarveru Jordan Pickford. 

Lokatölur 3-3 eftir ótrúlega skemmtilegan seinni hálfleik.

England endar á botni riðilsins með þrjú stig og Þýskaland endar með sjö stig.

England 3 - 3 Þýskaland
0-1 Ilkay Gündogan ('52, víti)
0-2 Kai Havertz ('67)
1-2 Luke Shaw ('72)
2-2 Mason Mount ('75)
3-2 Harry Kane ('83, víti)
3-3 Kai Havertz ('87)


Athugasemdir
banner
banner
banner