mán 27. janúar 2020 22:45
Aksentije Milisic
Ferdinand gagnrýnir Klopp: Á að vera á hliðarlínunni
Mynd: Getty Images
Rio Ferdinand, fyrrverandi leikmaður Man Utd, hefur gagnrýnt Jurgen Klopp, stjóra Liverpool. Ferdinand segir að Klopp eigi að vera á hliðarlínunni þegar Liverpool mætir Shrewsbury í endurteknum leik í FA bikarnum.

Klopp hefur gefið það út að enginn af leikmönnum aðalliðsins spili leikinn og að hann muni ekki stjórna leiknum. Það hefur ekki farið vel í alla.

Ferdinand er sá nýjasti sem hefur tjáð sig um málið en hann segist skilja að Klopp hvíli leikmenn en Rio vill sjá hann sjálfan stjórna liðinu í leiknum.

„Þegar þú ert gott lið og ert að berjast á öllum vígstöðum, þá skil ég vel að þú reynir að dreifa álaginu þegar það er sem mest. Hann vill vera viss um að hópurinn haldist í góðu standi og ef hann heldur að hann geti komist áfram í næstu umferð með ungt lið inni á vellinum þá verður bara að hafa það," sagði Rio.

„Það eina sem ég hef út á þetta að setja er það að hann sjálfur verði ekki á svæðinu. Hann er að gefa sér frelsi. Þar dreg ég línuna. Sem knattspyrnustjóri ætti hann að vera á hliðarlínunni í hverjum einasta leik, sama þó hann sé að hvíla alla leikmenn eða ekki."

Leikurinn fer fram á sama tíma og enska úrvalsdeildin er í vetrarfríi.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner