Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   mán 27. mars 2023 10:58
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Lögreglan ræddi við Man Utd áður en Greenwood var handtekinn
Mason Greenwood.
Mason Greenwood.
Mynd: EPA
Stór grein er skrifuð um Mason Greenwood á The Athletic í dag. Þar kemur fram að lögreglan hafi rætt við félag hans, Manchester United, um hegðun Greenwood löngu áður en hann var handtekinn í fyrra.

Greenwood var í fyrra handtekinn og ákærður fyrir tilraun til nauðgunar, ofbeldisfulla hegðun og líkamsárás gegn kærustu sinni. Englendingurinn var handtekinn eftir að kærasta hans birti myndir af áverkum sínum og hljóðupptöku þar sem hann neyðir hana til kynmaka.

Í síðasta mánuði voru hins vegar allar ákærur á hendur Greenwood lagðar niður.

Greenwood hefur ekki spilað með United síðan en félagið á eftir að taka ákvörðun um framtíð hans. Í grein The Athletic segir að tyrknesk félög hafi sett sig í samband við Man Utd um að fá Greenwood í sínar raðir en félagið hafnaði því.

Í greininni er rætt við ónefndan heimildarmann sem vann náið með Greenwood hjá United. Hann segir: „Hann tók óþroskaðar ákvarðanir, en margir ungir leikmenn gera það, svo þroskast þeir aðeins."

Greenwood hafi oft mætt seint á liðsfundi og á æfingar. Þá braut hann Covid-reglur hér á Íslandi og þá gerði hann það einnig oft á Englandi. Fólki var bannað að koma saman á Bretlandseyjum en Greenwood lét það ekki stoppa sig og hélt oft partý í Airbnb húsnæði í Salford.

Lögreglan heimsótti æfingasvæði Man Utd þar sem félagið var beðið um að hafa auga með leikmanninum, fylgjast betur með því sem hann væri að gera.

Greenwood á núna von á barni en það er óvíst hvort hann muni spila fótbolta á Englandi einhvern tímann aftur. Heimildarmaður The Athletic segir að Greenwood myndi hlaupa í gegnum múrvegg til þess að spila aftur fyrir Man Utd.
Athugasemdir
banner
banner
banner