Varane, Diaz, Matip, Yamal, Davies og Rashford koma við sögu
banner
   fim 27. september 2018 13:10
Elvar Geir Magnússon
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Lokaumferð á laugardag - Hvað getur gerst?
Kraftaverk, Evrópa, markamet, þjálfarar kveðja og leikmaður í áhugaverðri stöðu
Elvar Geir Magnússon
Gullskór? Jafnvel markamet?
Gullskór? Jafnvel markamet?
Mynd: Fótbolti.net - Bára Dröfn Kristinsdóttir
Ná KR-ingar aftur til Evrópu?
Ná KR-ingar aftur til Evrópu?
Mynd: Fótbolti.net - Bára Dröfn Kristinsdóttir
Alex Freyr Hilmarsson og Daníel Hafsteinsson í baráttunni.
Alex Freyr Hilmarsson og Daníel Hafsteinsson í baráttunni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kristján Guðmundsson stýrir ÍBV í síðasta sinn.
Kristján Guðmundsson stýrir ÍBV í síðasta sinn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Á laugardag verður flautað til leiksloka í Pepsi-deildinni þetta tímabilið. Kraftaverk þarf til að Valur vinni ekki titilinn og ljóst er hvaða lið falla en þó eru enn ýmsir punktar sem ég hlakka til að fylgjast með í lokaumferðinni.

Ég setti saman stuttan pistil um hvern leik í lokaumferðinni og hvet ykkur til að fylgjast með á Fótbolta.net og einnig í beinni útvarpslýsingu á X977 á laugardag!

14:00 Valur - Keflavík
Gönguferð í Íslandsmeistaragarðinum
Eitt stig á Origo vellinum og Valsmenn eru öruggir með Íslandsmeistaratitilinn 2018. Það yrði það ótrúlegasta sem maður hefur séð í boltanum ef Valur vinnur ekki titilinn. Gæðin, reynslan, krafturinn og sjálfstraustið í Valsliðinu ætti að verða til þess að Keflavíkurliðið, sem ekki hefur unnið leik í sumar og er löngu grafið, sjái ekki til sólar gegn besta liði landsins.

Keflvíkingar hafa verið týndir í sumar og framundan hjá þeim í vetur er mikilvæg vinna til að liðið nái vopnum sínum fyrir baráttu í erfiðri Inkasso-deild.

Mesta spennan í leiknum gæti snúist um Patrick Pedersen og markametið. Daninn er kominn með 17 mörk og er tveimur mörkum frá markametinu. Hann gæti jafnvel slegið metið í leiknum.

14:00 Breiðablik - KA
Trúa Blikar á Keflavíkurkraftaverk?
Ef það ótrúlegasta myndi gerast og Keflavík fagnaði sigri á Hlíðarenda þá fer Íslandsmeistaratitillinn í Kópavog með sigri Breiðabliks gegn KA. Pælið í svekkelsinu sem yrði hjá þeim grænu ef kraftaverkið gerist en þeir klára ekki sitt gegn þeim gulu!

Það hefur verið mikil bæting hjá Blikum eftir að Ágúst Gylfason tók við en úrslitaleikirnir hafa tapast. Innyrðisviðureignirnar í Íslandsmeistaraslagnum og sjálfur bikarúrslitaleikurinn. Blikar hafa verið ótrúlega nálægt þessu og spennandi að sjá hvort hænuskrefið sem vantaði verði tekið á næsta ári.

Það verður tilfinningaþrungin stund hjá gestunum þegar Tufa stýrir sínum síðasta leik hjá KA en Óli Stefán Flóventsson er sterklega orðaður við starfið. KA er í sjötta sæti og vill halda því en það yrði bæting um eitt sæti frá síðasta ári.

14:00 Stjarnan - FH
FH þarf Evrópu
Stjörnumenn stimpluðu sig út með tapinu í Vestmannaeyjum en eiga þó enn tölfræðilega möguleika á titlinum. Keflavíkurkraftaverk, Blikar vinna ekki og Stjarnan fagnar sigri ásamt því að vinna upp markatölu Vals og titillinn fer í Garðabæ. Þetta er stjarnfræðilega fjarlægur möguleiki.

Rúnar Páll skilaði bikarnum í hús hjá Garðbæingum og sama hver niðurstaðan verður á laugardag þá var tímabilið drullugott hjá þeim bláu. - Hilmar Árni er marki á eftir Patrick og vonast eftir gullskónum eftir þennan leik.

Sama hvað sagt er í Hafnarfirði þá þarf rekstur FH augljóslega á Evrópu að halda. Liðið er með 34 stig líkt og KR en með lakari markatölu upp á þrjú mörk. Annað hvort liðið mun hafna í fjórða sætinu. Allir vita að tímabil FH hefur verið ömurlegt og verður dæmt þannig, en það er enn möguleiki á að ná að einum björgunarhring í lokin.

14:00 Víkingur R. - KR
Spilar Alex Freyr gegn sínum verðandi félögum?
Víkingar eru hólpnir en áhugaverð staða er uppi í leiknum. Besti leikmaður Víkings, Alex Freyr Hilmarsson, er sagður hafa gert samkomulag við KR fyrir næsta tímabil.

KR-ingar eru í harðri Evrópubaráttu við FH (eins og komið er inn á hér að ofan) og leikurinn þeim gríðarlega mikilvægur. Og Alex vill væntanlega taka þátt í Evrópukeppni á næsta tímabili. Hvað gerir hann gegn KR? Eða mun hann yfirhöfuð spila leikinn á laugardag?

Eftir mjög hæga byrjun á Íslandsmótinu geta KR-ingar verið ágætlega sáttir með bætinguna hjá liðinu ef Evrópusæti næst. Háværar sögusagnir eru um að stjórn Víkings telji að Logi Ólafsson komist ekki lengra með liðið og þjálfaraskipti verði í Fossvogi eftir tímabil.

14:00 Grindavík - ÍBV
Þjálfararnir kveðja eftir gott starf
Óli Stefán og Kristján Guðmunds stýra liðum sínum í síðasta sinn en þeir hafa báðir unnið virkilega gott starf hjá þessum félögum.

Leikurinn hefur annars enga þýðingu en liðin vilja væntanlega klífa aðeins upp töfluna. Grindavík hefur gefið mikið eftir en getur farið upp um tvö sæti og endað í 7. sæti, ÍBV á möguleika á að hoppa upp um eitt sæti og enda í 6. sæti.

14:00 Fylkir - Fjölnir
Lífsbaráttuleikurinn sem ekki varð
Helgi Sig náði því markmiði að halda nýliðum Fylkis uppi en Ólafi Páli Snorrasyni mistókst að finna lausnir hjá Fjölnisliðinu sem er fallið. Fyrir nokkrum umferðum var útlit fyrir að þetta gæti orðið úrslitaleikur um fall en svo varð ekki. Ekki er meira um þennan leik að segja!
Stöðutaflan
  L U J T ms: mf: mun Stig
0 0 0 0 0 0 0 0 0
Athugasemdir
banner
banner