Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   fim 29. febrúar 2024 13:50
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Sagan að endurtaka sig í tilfelli Orra?
Orri Steinn Óskarsson.
Orri Steinn Óskarsson.
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Rasmus Höjlund.
Rasmus Höjlund.
Mynd: EPA
Orri Steinn Óskarsson er hugsanlega á förum frá FC Kaupmannahöfn á næstu dögum eða í sumar. Það er áhugi á honum í Noregi og Svíþjóð.

Orri hefur ekki komið neitt við sögu í síðustu þremur leikjum FC Kaupmannahafnar og hefur hann ekki verið í hóp í síðustu deildarleikjum. Það að hann sé ekki í hóp verður að teljast skrítið þar sem Orri hefur nýtt tækifæri sín vel og skorað átta mörk og lagt upp sex í 28 leikjum á tímabilinu. Hann er að skora mark á 152 mínútna fresti.

Það kom fram í frétt Fótbolta.net í gær að heyrst hefði að Rosenborg væri eitt þeirra félaga sem hefði áhuga á Orra. Félagið er í mikilli meiðslakrísu framarlega á vellinum og Orri þekkir nýráðinn þjálfara Rosenborg, Alfred Johansson, en sá þjálfaði hann í unglingaliðunum í Kaupmannahöfn.

Aftenposten sagði svo frá því í gærkvöldi að Orri væri leikmaður sem Rosenborg væri að íhuga að reyna að krækja í. Þessar sögur með Orra gætu rifið upp gömul sár fyrir FCK og stuðningsmenn liðsins. Axel Moen, sem er þjálfari og njósnari, líkir þessum sögum um Orra við það sem gerðist hjá Höjlund þegar hann var leikmaður FCK.

Höjlund ólst upp hjá FCK en hann fékk ekki tækifærin sem hann þráði. Hann var mikið í því að koma inn af bekknum og var seldur til Sturm Graz í Austurríki fyrir 1,8 milljónir evra. Höjlund fékk traustið í Austurríki og var fljótur að láta til sín taka. Hann skoraði tólf mörk í 21 leik og var átta mánuðum síðar seldur til Atalanta á Ítalíu.

Svo skipti hann yfir til Manchester United síðasta sumar fyrir 72 milljónir punda og er núna byrjaður að raða inn mörkum í ensku úrvalsdeildinni.

FCK gerði mistök með Höjlund og menn spyrja sig að því núna hvort félagið muni mögulega gera sömu mistök með Orra. Það verður að koma í ljós.


Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner