Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   fim 29. apríl 2021 17:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Spá Fótbolta.net fyrir Pepsi Max-deild kvenna: 3. sæti
Fylkir
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Bryndís Arna
Bryndís Arna
Mynd: Fótbolti.net - Einar Ásgeirsson
Tinna Brá er komin í markið
Tinna Brá er komin í markið
Mynd: Fótbolti.net - Eyjólfur Garðarsson
Þórdís Elva og Stefanía
Þórdís Elva og Stefanía
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Keppni í Pepsi Max-deild kvenna hefst 4. maí næstkomandi. Fótbolti.net mun næstu dagana opinbera spá fyrir deildina í sumar en liðin verða kynnt eitt af öðru næstu dagana.

Spáin:
1. ?
2. ?
3. Fylkir
4. Selfoss
5. Þór/KA
6. Þróttur R.
7. Stjarnan
8. ÍBV
9. Keflavík
10. Tindastóll

3. Fylkir

Lokastaða í fyrra: Fylkir endaði í 3. sæti deildarinnar í fyrra, þó með stigi minna en Selfoss sem endaði í 4. sætinu. Fylkir lék leik færra og var með fleiri stigi að meðaltali í leik. Fylkir var nítján stigum frá Val sem endaði í öðru sæti og fimm stigum fyrir ofan fallsæti, það var ansi þéttur pakki fyrir neðan toppsætin! Fylkir endaði með -7 mörk í markatölu og með bæði 4. besta árangur liða á heimavelli og útivelli.

Þjálfarinn: Kjartan Stefánsson er við stjórnvölinn í Árbænum líkt og undanfarin þrjú ár. Kjartan hefur áður stýrt yngri flokkum hjá Fylki og meistaraflokki kvenna hjá Haukum. Oddur Ingi Guðmundsson og Þorsteinn Magnússon eru Kjartani til aðstoðar.

Álit Jóa
Jóhann Kristinn Gunnarsson er sérfræðingur Fótbolta.net í Pepsi Max-deild kvenna líkt og síðustu ár. Hér er álit hans á liði Fylkis.

„Það má segja að verkefnið í Árbænum sé að ganga vel hjá kvennaliðinu. Skýr stefna í leikmannamálum og viðbætur við hópinn eru ekki út í loftið. Spilamennskan er alltaf á uppleið og Fykisstelpur eru farnar að banka fastar á hurðina í toppbaráttunni. Hvort þetta verði árið sem þær ná í skottið á stóru liðunum tveim verður að koma í ljós. En spekingarnir trúa því að þær verði liðið sem verður best af hinum."

Tvö stór skörð hoggin og eitt skref í viðbót?
„Það hefur gengið vel á undirbúningstímabilinu og nokkur stöðugleiki virðist vera að nást hjá Fylki. Haldi þetta svona áfram gæti liðið farið að leyfa sér að dreyma um að gera betur en í fyrra. Það er stemning og umgjörðin virkar góð hjá liðinu. Allir virðast vera að stefna í sömu átt og einhvern veginn virkar þessi samhljómur áþreifanlegur fyrir okkur sem fylgjumst með."

„Tvö alvöru skörð eru hoggin í raðir Fylkis í sumar og þurfa aðrar að stíga verulega upp til að fylla þau. Berglind Rós Ágústsdóttir og Cecilía Rán Rúnarsdóttir eru alvöru kanónur sem leika nú með Örebro í Svíþjóð og skilja mikið eftir sig hjá Fylki. Á leikmannamarkaðnum hefur Fylkir bætt við sig af klókindum og sótt flotta leikmenn hér innanlands."

„Það verður spennandi að sjá hvernig deildin þróast í sumar og hvort Fylkir nær að halda í við toppliðin tvö. Von okkar áhugafólks er auðvitað að fleiri lið blandi sér í toppbaráttuna og hleypi enn meiri spennu í mótið. Spurning hvort Fylkir getur tekið enn eitt skrefið upp á við í sumar?"


Lykilmenn: Tinna Brá Magnúsdóttir, Þórdís Elva Ágústsdóttir og Hulda Hrund Arnarsdóttir.

Gaman að fylgjast með: Bryndís Arna Níelsdóttir er mikill markaskorari sem gaman verður að fylgjast með taka næsta skref.

Komnar:
Birna Dís Eymundsdóttir frá Stjörnunni
Birna Kristín Eiríksdóttir frá Haukum
Emma Steinsen Jónsdóttir frá Val (á láni)
Helena Ósk Hálfdánardóttir frá FH
Karólína Jack frá Víkingi R.
Sæunn Björnsdóttir frá Haukum
Tinna Brá Magnúsdóttir frá Gróttu
Valgerður Ósk Valsdóttir frá FH

Farnar:
Berglind Rós Ágústsdóttir til Örebro í Svíþjóð
Brynhildur Brá Gunnlaugsdóttir í FH
Cecilía Rán Rúnarsdóttir til Örebro
Rakel Leósdóttir í Hauka
Sólveig Lára Jóhannesdóttir til Vals (var á láni)
Vesna Elísa Smiljkovic hætt

Sjá einnig
Hin Hliðin - Bryndís Arnar Níelsdóttir
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner