Man City ræðir um möguleg kaup á Ait-Nouri - Adarabioyo eftirsóttur - Newcastle vill Sesko
   mið 04. desember 2019 20:19
Ívan Guðjón Baldursson
Gylfi Þór: Þetta er einn af stærstu leikjunum
Mynd: Getty Images
Gylfi Þór Sigurðsson ber fyrirliðaband Everton í nágrannaslagnum gegn Liverpool í kvöld. Leikurinn er í beinni útsendingu í Sjónvarpi Símans og er Tómas Þór Þórðarson mættur á Anfield ásamt Frey Alexanderssyni fyrir hönd Símans.

Everton teflir fram sama byrjunarliði í kvöld og í síðasta leik gegn Leicester, sem tapaðist 2-1 þrátt fyrir góða frammistöðu. Andstæðingar þeirra gera hins vegar miklar breytingar á sínu liði, þar sem stórstjörnur á borð við Roberto Firmino og Mohamed Salah detta á bekkinn.

„Þetta er einn af stærstu leikjunum, ég held þú munir taka eftir því í kvöld. Þetta er sérstakt, það verða gríðarlega mikil læti enda mikið undir," sagði Gylfi Þór.

„Þetta er búið að ganga upp og niður, svona mestmegnis niður, á tímabilinu. Það hefur verið okkar veikleiki að spila leikina ágætlega en tapa þeim, það var grátlegt að fá þetta mark á sig á 92. mínútu og tapa leiknum."

Gylfi hefur miklar mætur á andstæðingum kvöldsins sem verma toppsæti ensku deildarinnar, með átta stiga forystu.

„Þeir eru með frábæra leikmenn. Þetta er heilsteypt lið með góða liðsheild. Þetta verður gríðarlega erfiður leikur fyrir okkur en það er oft í þessum leikjum sem undanfarið gengi skiptir engu máli. Þetta getur dottið beggja vegna og vonandi dettur þetta okkar megin.

„Það væri mjög skemmtilegt að setja eitt mark í kvöld og kannski halda hreinu og stela þessu 1-0."



Athugasemdir
banner
banner
banner
banner