Gabriel Martinelli, leikmaður Arsenal, var hæstánægður með 2-0 sigur liðsins á Olympiakos í Meistaradeildinni í kvöld, en enska liðið er með fullt hús stiga eftir tvo leiki.
Martinelli skoraði fyrra mark Arsenal í leiknum er hann hirti frákast eftir skot Viktor Gyökeres.
Arsenal átti möguleika á að skora fleiri en sætti sig á endanum við tvö.
„Þetta er Meistaradeildin. Olympiakos er með mjög gott lið og góða leikmenn. Við hefðum getað skorað fleiri mörk í fyrri hálfleik og fengum færin til þess, en svona er Meistaradeildin.“
„Ég reyndi að bíða aðeins til að sjá ef Viktor myndi skora, en svo snerti boltinn stöngina þannig ég setti hann í netið. Þetta var gott mark og ég er mjög ánægður með það og sigurinn,“ sagði Martinelli.
Breiddin í Arsenal-liðinu er mikil og samkeppni um allar stöður, en Martinelli segir þetta gott ef liðið ætlar sér að vinna alla titla sem í boði eru.
„Þetta er gott fyrir félagið. Við viljum hafa bestu leikmennina í kringum okkur og erum með mjög góðan hóp. Við viljum vinna alla titla sem eru í boði og það er nákvæmlega það sem við munum reyna.“
„Við spilum fyrir Arsenal og viljum vinna hvern einasta leik sem við mögulega getum og alla titla,“ sagði hann ennfremur.
Athugasemdir