Man Utd hefur áhuga á Valverde - Guehi gæti farið til Tottenham - Frank hefur líka áhuga á Collins
   mið 01. október 2025 23:02
Brynjar Ingi Erluson
Arteta: Hann var stórkostlegur
Mynd: EPA
Ödegaard var frábær
Ödegaard var frábær
Mynd: EPA
Mikel Arteta, stjóri Arsenal á Englandi, fagnaði 2-0 sigri á Olympiakos í kvöld, en liðið er með fullt hús eftir leikina tvo í Meistaradeild Evrópu.

Arsenal var í smá vandræðum með Olympiakos. Gabriel Martinelli kom liðinu yfir snemma leiks en Grikkirnir ógnuðu nokkrum sinnum marki heimamanna.

David Raya varði frábærlega frá Daniel Podence og þá var mark dæmt af Olympiakos í þeim síðari.

Bukayo Saka náði að tryggja sigurinn undir lok leiksins og annar sigur Arsenal staðreynd.

„Ég er ótrúlega ánægður með sigurinn og að halda hreinu gegn erfiðum andstæðingi. Við byrjuðum leikinn mjög vel, skorum mark og fengum nokkur stór færi. Við opnuðum okkur heldur mikið í kjölfarið og þurftum hörkuvörslu frá David Raya til að halda lakinu hreinu, en ég bara verð að hrósa strákunum fyrir frammistöðuna í kvöld og eftir leikinn gegn Newcastle,“ sagði Arteta.

Martin Ödegaard átti frábæran leik í liði Arsenal og var valinn bestur af fjölmörgum miðlum og UEFA. Arteta var í skýjunum með frammistöðu hans.

„Hann var stórkostlegur. Hann hafði áhrif á leikinn með mjög svo mikilvægum hætti. Hann hélt áfram að spila boltanum fram völlinn og senda menn í gegn. Hann hefði líka átt að skora mark þannig það er bara mjög gott að hann sé mættur aftur á þetta stig.“

Brasilíski miðvörðurinn Gabriel þurfti að fara af velli í síðari hálfleik vegna meiðsla sem hann varð fyrir í fyrri hálfleiknum.

„Hann var í smá basli eftir spark í fyrri hálfleiknum þannig við ákváðum að taka hann af velli.“

Arteta mun um helgina stýra 300. leik sínum með Arsenal er liðið tekur á móti West Ham á Emirates-leikvanginum. Spánverjinn er þakklátur fyrir að hafa fengið tíma til þess að sanna sig hjá félaginu.

„Ég vissi það reyndar ekki. Það eru margir leikir hjá þessu félagi þannig þetta er bara þvílíkur heiður fyrir mig og ber ég öllum þeim sem hafa leyft mér að vera hér allan þennan tíma miklar þakkir,“ sagði Arteta.
Athugasemdir
banner