Tæpur fyrir leikinn gegn Finnlandi
Sóknarmaðurinn Jón Daði Böðvarsson er í kapphlaupi við tímann til að vera klár í landsleikinn gegn Finnlandi á fimmtudag. Hann skokkaði á æfingu landsliðsins í dag á meðan liðsfélagarnir spörkuðu í bolta.
„Ég vonast til að verða klár fyrir Finnaleikinn. Á æfingu hjá Wolves var ég mjög nálægt því að togna en tognaði ekki. Nú er bara verið að vinna í því að mýkja vöðvann upp," sagði Jón Daði við Fótbolta.net.
„Ég verð ekki með á æfingu núna. Ég verð með Frikka og Sebastian (sjúkraþjálfurum) að gera æfingar. Maður verður að fara varlega. Mikilvægast er að verða klár í þennan leik."
Tveir leikir eru framundan með stuttu millibili, Finnland á fimmtudag og Tyrkland á sunnudag.
„Við erum orðnir það hungraðir að við sættum okkur ekki við annað en sex stig. Við förum í verk með því hugarfari."
Jón Daði segir að sjálfstraustið sé í botni en hann elskar lífið hjá Wolves í ensku B-deildinni.
„Mér hefur aldrei liðið betur á ferlinum og aldrei spilað betur. Þetta hefur verið ótrúlega gaman og þessi bolti hentar mér rosalega vel. Ég finn fyrir miklu trausti frá liðsfélögum og þjálfurum," segir Jón Daði en viðtalið má sjá í heild í sjónvarpinu hér fyrir ofan.
Athugasemdir






















