Thilo Kehrer, varnarmaður West Ham og þýska landsliðsins, er spenntur fyrir úrslitaleik Sambandsdeildarinnar sem fer fram í kvöld.
Hamrarnir spila þar við ítalska félagið Fiorentina og eigast liðin við í Prag, höfuðborg Tékklands.
Ljóst er að þetta verður söguleg stund fyrir annað hvort félagið þar sem hvorugt félag hefur unnið titil síðan í kringum aldamótin, þegar West Ham vann Intertoto bikarinn 1999, áður en Fiorentina vann ítalska bikarinn 2001.
„Við erum komnir í úrslitaleikinn en núna þurfum við að setja alla okkar einbeitingu í að klára mótið vel. Það væri magnað að enda tímabilið með titli, alveg eins og ég sagði þegar ég gekk í raðir West Ham í fyrra," segir Kehrer fyrir úrslitaleikinn.
„Við erum með gæðin í leikmannahópinum til að vinna þennan leik og við mætum í hann fullir sjálfstrausts. Strákarnir eru mjög spenntir fyrir leiknum og við finnum fyrir mikilli eftirvæntingu hjá stuðningsmönnum, við þurfum að taka orkuna frá þeim með okkur. Við munum gera okkar besta til að sigra."