Tottenham 3 - 4 Chelsea
1-0 Dominic Solanke ('5 )
2-0 Dejan Kulusevski ('11 )
2-1 Jadon Sancho ('17 )
2-2 Cole Palmer ('61 , víti)
2-3 Enzo Fernandez ('74 )
2-4 Cole Palmer ('84 , víti)
3-4 Son Heung-Min ('90 )
1-0 Dominic Solanke ('5 )
2-0 Dejan Kulusevski ('11 )
2-1 Jadon Sancho ('17 )
2-2 Cole Palmer ('61 , víti)
2-3 Enzo Fernandez ('74 )
2-4 Cole Palmer ('84 , víti)
3-4 Son Heung-Min ('90 )
Chelsea vann magnaðan 4-3 endurkomusigur á Tottenham er liðin áttust við í Lundúnaslag á Tottenham Hotspur-leikvanginum í ensku úrvalsdeildinni í dag.
Leikurinn byrjaði á skelfilegum mistökum Marc Cucurella í vinstri bakverðinum. Hann rann til og nýtti Brennan Johnson mistök hans og keyrði upp hægri vænginn. Hann kom boltanum á nærsvæðið þar sem Dominic Solanke var mættur til að stinga boltanum inn í netið.
Cucurella var á rassinum í byrjun leiks og kostaði hann annað mark sex mínútum síðar. Aftur rann Cucurella til og úr því skoraði Dejan Kulusevski gott mark með skoti í hægra hornið.
Chelsea náði að bregðast við þessu. Jadon Sancho minnkaði muninn á 17. mínútu. Enski vængmaðurinn fékk hann vinstra megin, keyrði inn meðfram teignum áður en hann skaut hnitmiðuðu skoti neðst í hægra hornið.
Fimm mínútum síðar gat Cole Palmer jafnað metin er hann fékk boltann í dauðafæri tveimur metrum frá marki en hann hitti ekki boltann og sluppu Tottenham menn með skrekkinn.
Moises Caceido, leikmaður Chelsea, var stálheppinn að vera inn á vellinum eftir að hann fór í ljóta tæklingu á Pape Matar Sarr á 33. mínútu en ekkert gefið fyrir það.
Mínútu síðar var Sarr hársbreidd frá því að koma Tottenham aftur yfir en skalli hans hafnaði í þverslá eftir hornspyrnu.
Fjörugur fyrri hálfleikur og voru það Chelsea-menn sem komu ákveðnari inn í þann síðari.
Þegar tæpar fimmtán mínútur voru liðnar fengu gestirnir vítaspyrnu er Yves Bissouma hamraði Caicedo niður í teignum og réttilega dæmd vítaspyrna. Cole Palmer skoraði úr spyrnunni og staðan jöfn.
Palmer komst í gírinn og átti stóran þátt í þriðja marki Chelsea sem Enzo Fernandez skoraði. Englendingurinn dansaði með boltann í teig Tottenham áður en hann kom honum fyrir. Boltinn fór af varnarmanni og datt fyrir Enzo sem þrumaði honum í vinstra hornið.
Þegar sex mínútur voru eftir af venjulegum leiktíma fiskaði Palmer aðra vítaspyrnu Chelsea í leiknum er Sarr keyrði aftan í bakið á honum.
Palmer fór á punktinn í annað sinn og skoraði 11. deildarmark sitt á tímabilinu.
Heung-Min Son tókst að klóra í bakkann fyrir Tottenham í uppbótartíma en lengra komust heimamenn ekki.
Geggjuð endurkoma hjá Chelsea sem virðist ætla að vera í titilbaráttunni í ár. Liðið er nú með 31 stig í öðru sæti, fjórum stigum frá toppliði Liverpool, en þeir rauðu eiga leik inni. Tottenham er á meðan í 11. sæti með 20 stig og óhætt að segja að sæti Ange Postecoglou sé farið að hitna verulega eftir úrslit dagsins.
Athugasemdir