„Það er ótrúlega súrt að fá á sig þrjú mörk og þegar þú færð á þig þrjú mörk þá verður þetta erfitt," sagði Óli Stefán Flóventsson, þjálfari KA, eftir 3-1 tap gegn ÍA í fyrstu umferð Pepsi Max-deildarinnar þennan sunnudaginn.
Lestu um leikinn: ÍA 3 - 1 KA
„Ég er hins vegar ánægður með 60-70 prósent af frammistöðu sem við settum upp. Við komumst yfir og fáum frábærar stöður í fyrri hálfleik til að bæta við, en í staðinn jafnar Skaginn og leikurinn verður jafnari fyrir vikið. Við vorum að elta eftir þetta glæsilega mark sem kemur þeim yfir og vítið sem við gefum, það drepur okkur," sagði Óli Stefán.
Það vantaði erlendu leikmennina í lið KA, þá Mikkel Qvist, Jibril Abubakar og Rodrigo Gomes Mateo.
„Mikkel Qvist fékk tak í lærið, Rodrigo fær sýkingu og leggst inn á sjúkrahús með sýkalyf í æð. Hann er að stíga til baka núna. Jibril fær pínu tak í lærið og Guðmundur Steinn er ekki kominn með leikheimild. Þetta eru kandídatar sem munu hjálpa okkur, en hitt er annað mál að það voru yngri strákar sem stimpluðu sig vel inn í dag. Við erum að setja inn ótrúlega marga KA-leikmenn og byrjunarliðið í dag er eingöngu af Norðurlandinu. Það er það sem við höfum verið að byggja upp."
Viðtalið er í heild sinni hér að ofan.
Athugasemdir