Heimir Hallgrímsson, þjálfari írska karlalandsliðsins í fótbolta, segist hafa mikla trú á hópnum en að leikmenn verði að hafa meiri trú á sjálfum sér.
Írska liðið tapaði fyrir Grikklandi, 2-0, í B-deild Þjóðadeildarinnar í Aþenu í gær en þetta var þriðja tap liðsins undir stjórn Heimis.
„Tilfinningin er svolítið þannig að um leið og við fáum á okkur mark þá hverfur pressan og við byrjum að hafa meiri trú á því sem við erum að gera. Það var sama gegn Finnlandi, en þá ræddum við saman í hálfleik. Núna kom markið snemma í síðari hálfleiknum,“ sagði Heimir við RTE.
„Eftir markið fannst mér við komast betur inn í leikinn, það var meiri trú í sendingum, spila boltanum fram og í pressunni. Við sögðum fyrir leikinn að við vissum að það kæmi bylgja í áttina að okkur og andrúmsloftið var eftir því.“
„Þó þeir hafi verið betri í fyrri hálfleik þá héldum við okkur inn í leiknum og fengum ekki á okkur mark. Strúktúrinn hjálpaði og við héldum í hann, en þeir voru miklu betri en við í fyrri hálfleiknum.“
„Við vitum að við getum gert betur og við sáum það í síðari hálfleiknum. Þetta snýst bara um það að fara og grípa þessa trú á hvorum öðrum, á liðinu og byrja aftur með þessa trú á því sem við gerðum í seinni hálfleik með ákefð, pressu, spila fram og ná í boltann í teignum. Það er okkar veruleiki,“ sagði Heimir.
Varamennirnir hafa verið að nýta tækifæri sínu undir Heimi, en Jack Taylor var nálægt því að skora eftir að hafa komið inn á fyrir Evan Ferguson og þá lagði Festy Ebosele upp sigurmarkið fyrir Robbie Brady í síðasta leik gegn Finnlandi.
„Strákarnir sem komu inn af bekknum í þessum leik og síðasta sönnuðu það að þeir vilja spila og vera hluti af þessu liði. Það er alltaf eitthvað jákvætt hægt að taka úr leiknum og jafnvel margt jákvætt, en þú vilt aldrei tapa 2-0.“
„Þetta er gott lið, með góða leikmenn sem hafa kannski of litla trú þegar þeir fara inn í svona leiki. Á þessu stigi þarftu að setja kassann fram þegar þú spilar leiki.“
„Maður þarf að vera meira ríkjandi og við virðumst þurfa augnablik til að ná í það, með því að fá á okkur mörk í síðustu tveimur leikjum til að geta spilað okkar leik. Það er klárlega trú í hópnum og ég hef fulla trú á þeim. Ég vona að fólk geti séð að þetta lið getur verið rosalega gott á þeirra degi,“ sagði Heimir í lokin.
Athugasemdir