
Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari kvenna, sat fyrir svörum á fréttamannafundi í dag þegar landsliðshópurinn fyrir síðustu tvo leikina í undankeppni HM var tilkynntur.
Ísland er í góðum möguleika á að komast á mótið. Það eru góðar líkur á því að liðið muni taka sigur gegn Hvíta-Rússlandi og þá er það bara úrslitaleikur við Holland þar sem jafntefli kemur til með að duga til að vinna riðilinn.
Leikurinn gegn Hvíta-Rússlandi er 2. september á Laugardalsvelli og leikurinn gegn Hollandi 6. september í Utrecht í Hollandi.
Fréttamaður Fótbolta.net spjallaði við Steina að fundi loknum.
„Þetta verkefni leggst vel í mig, þetta er spennandi verkefni, krefjandi og skemmtilegt," segir Steini. „Þannig viljum við hafa það."
Það eru tvær breytingar á hópnum frá EM. Arna Sif Ásgrímsdóttir úr Val kemur inn fyrir Hallberu Guðný Gísladóttur og þá kemur Hlín Eiríksdóttir inn fyrir Karólínu Leu Vilhjálmsdóttur, sem er meidd. Karólína var frábær á Evrópumótinu en er ekki með fyrir þessa tvo mikilvægu leiki.
Hallbera ákvað að hætta í fótbolta eftir EM. Það var ákvörðun sem kom á óvart.
„Hún kom á óvart. Maður hafði ekki heyrt að hún væri á þeim buxunum að hætta á þeim tímapunkti. Henni leið þannig að þetta væri rétti tíminn og út frá því tekur hún þessa ákvörðun," segir Steini en hann ræddi ekki við hana um að hætta við að hætta.
„Ég fann það þegar ég var að ræða við hana að það hefði ekkert þýtt. Þú þarft að vera í fótbolta á þínum forsendum og ef þú ert á forsendum einhvers annars, þá áttu ekki eftir að gera góða hluti."
Stærstu tíðindin í þessum hóp eru þau að Karólína Lea Vilhjálmsdóttir dettur út úr hópnum vegna meiðsla. Meiðslin hafa verið að plaga hana í heilt ár en félagslið hennar og hún tóku þá ákvörðun núna að hún ætti að taka sér hlé og fara í endurhæfingu.
„Karólína er lykilmaður hjá okkur og það eru vonbrigði þegar leikmenn meiðast og komast ekki í landsliðsverkefni. Klárlega eru þetta vonbrigði fyrir okkur. Hún var góð á EM og hefur verið góð undanfarið ár."
Reyndi Steini ekki að fá Bayern München og Karólínu til að fresta þessu aðeins?
„Nei, okkar samtal var þannig að það kom smá upp hjá henni um daginn og versnaði aðeins. Það var tekin ákvörðun sem var með hennar hag í brjósti. Þetta snýst um að hún nái sér sem fyrst. Ef hún hefði haldið áfram þá hefði þetta getað versnað og þýtt enn lengri tíma. Það var tekin ákvörðun að gera þetta núna og klára þetta í eitt skipti fyrir öll. Það hjálpar okkur frekar en að taka einhvern séns og þá verður hún kannski enn lengur frá," sagði Steini en allt viðtalið er í spilaranum hér fyrir ofan.
Leikirnir sem eru framundan:
2. september gegn Hvíta-Rússlandi (Laugardalsvöllur)
6. september gegn Hollandi (Stadion Galgenwaard)
Athugasemdir