mán 23. mars 2020 11:30
Elvar Geir Magnússon
Geir Þorsteins: Áttaði mig á því að ferðum mínum fyrir FIFA myndi fækka
Geir Þorsteinsson er orðinn framkvæmdastjóri ÍA.
Geir Þorsteinsson er orðinn framkvæmdastjóri ÍA.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Geir Þorsteinsson var um helgina ráðinn nýr framkvæmdastjóri ÍA. Geir býr yfir gríðarlegri reynslu í fótboltanum en hann er fyrrum formaður KSÍ.

Síðustu ár hefur hann verið að starfa í verkefnum fyrir FIFA en vegna kórónaveirufaraldursins gerði hann sér grein fyrir því að þeim verkefnum myndi fækka.

„Ég hef verið töluvert mikið í Asíu og Eyjaálfu fyrir FIFA síðustu þrjú ár. Þegar veiran fór að dreifa sér um þá áttaði ég mig á því að ég væri ekki mikið að fara þangað," segir Geir.

„Þá fór ég að líta í kringum mig og svo losnaði þetta starf. Ég hafði áhuga á því að koma mér fyrir á heimavelli aftur, í íslenska boltanum. Ég er mjög ánægður með að vera kominn í knattspyrnufélag."

Þurfum að komast út úr þessum kafla
Geir segist spenntur fyrir því að starfa aftur í fótboltabransanum hérna heima.

„Mjög svo. Ég hef verið nálægt fótboltanum allt mitt líf. Þar er áhuginn, reynslan og þekkingin. Ég er mjög glaður yfir því að vera kominn í þetta starf."

Geir kemur inn í starfið hjá ÍA á fordæmalausum tímum og ljóst að fótboltinn er að fara að takast á við hluti sem ekki hafa sést áður.

„Ég þekki ekki til þess að það hafi verið æfingabann á Íslandi, allavega ekki í heila öld. Þetta er krísuástand. Ég er tilbúinn í þetta verkefni og vonast til að reynsla mín nýtist sem best. Þetta eru krefjandi aðstæður og við verðum að komast út úr þessum kafla," segir Geir Þorsteinsson.
Athugasemdir
banner
banner