Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   þri 24. mars 2020 10:08
Elvar Geir Magnússon
Alexander-Arnold: Hata meira að tapa en ég elska að vinna
Trent Alexander-Arnold.
Trent Alexander-Arnold.
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Trent Alexander-Arnold varnarmaður Liverpool er aðeins 21 árs en hefur þegar afrekað flest það sem ungir fótboltaiðkendur dreymir um.

Árið 2017 meiddist Nathaniel Clyne, þá byrjunarmaður í hægri bakverðinum, alvarlega og Alexander-Arnold fékk tækifæri með aðalliðinu. Hann hefur ekki litið til baka síðan.

Hann er lykilmaður hjá Liverpool en liðið vann Meistaradeildina í fyrra og er með 25 stiga forystu í ensku úrvalsdeildinni.

Alexander-Arnold fór í ítarlegt viðtal við GQ þar sem víða var komið við.

Hann segir að enn sé verk að vinna fyrir Liverpool undir stjórn Jurgen Klopp en þýski stjórinn gaf honum tækifæri og hefur fylgst með honum vaxa og dafna í að verða einn hæfileikaríkasti ungi fótboltamaður í heiminum.

Klopp er ótrúlegur
Þegar Alexander-Arnold var spurður út í Klopp svaraði hann strax með einu orði: „Ótrúlegur!"

Eftir smá bið fylgdi: „Allt varðandi hann er ótrúlegt að öllu leyti. Hvernig hann nær til leikmanna, hvernig hann notar persónuleika sinn. Hann er bara ótrúlegur knattspyrnustjóri."

„Fólk getur séð að hann er einstaklingur sem hugsar um fólkið í kringum sig. Hann hugsar um fjölskyldu sína, leikmenn og starfslið. Hann kemur fram við fyrirliðann á alveg sama hátt og ungan leikmann."

„Hann er á tíðum mjög ástríðufullur á æfingasvæðinu. Það er samt eitthvað annað sem er ótrúlegt við hann. Hann veit hvað þarf að segja og hvernig á að koma því frá sér," segir Alexander-Arnold.

Mikið keppnisskap
Þegar hægri bakvörðurinn var yngri var hann ekki með sama jafnaðargeð og hann er þekktur fyrir núna. Alexander-Arnold viðurkennir að hafa átt í vandræðum með að hemja skap sitt.

„Ég var ekki alltaf reiður. Þetta var meira tengt keppnisskapinu. Ég vildi alltaf vinna og ef það tókst ekki þá fór það í taugarnar á mér. Ég reiddist sjálfum mér. Þetta kom frá því að ég var yngri og var í garðinum með bræðrum mínum. Við vorum alltaf að keppa og fyrir mér var eðlilegt að reiðast ef maður náði ekki að vinna."

Alexander-Arnold telur sig með aldrinum hafa náð að hemja skapið á jákvæðan hátt.

„Ég hata meira að tapa en ég elska að vinna. Það veikir mann að hafa tilfinninguna að einhver var betri en þú. Þér finnst þú hafa brugðist fólkinu í kringum þig. Það er hollt að skilja tapið eftir en með hverju tapi er lærdómur," segir Alexander-Arnold.

Hefur ekki náð toppnum
Talað hefur verið um að hann sé að breyta hægri bakvarðarstöðuna með leikstíl sínum. Hann er gríðarlega öflugur í sóknarleiknum og fyrirgjafir hans í hæsta klassa. Þrátt fyrir það telur hann sjálfur að hann geti bætt mikið.

„Ég lít ekki sjálfur á mig sem framúrskarandi fótboltamann. Ég elska að spila fótbolta en ég tel að ég hafi ekki náð toppnum. Ég er ekki kominn á þann stað sem ég vil vera á. Það er hægt að bæta margt og ég þarf að leggja mikið á mig," segir hann.

Í viðtalinu segir Alexander-Arnold frá því þegar hann upplifði þá óskemmtilegu lífsreynslu að verða fyrir kynþáttaníð. Búlgaría og England mættust í október síðastliðnum og var ljótum orðum kallað að hörundsdökkum leikmönnum enska liðsins.

„Þetta er í eina skipti sem ég hef upplifað kynþáttafordóma. Það er óásættanlegt þegar þetta á sér stað, hvort sem það er á fótboltavellinum eða í daglegu lífi. Ég tel að fáfræði skapi kynþáttafordóma. Mismunin er ekki ásættanleg því allir eiga að fá jöfn tækifæri."
Athugasemdir
banner
banner