Barcelona og Man City vilja Olmo - Liverpool gæti reynt við Kudus - Chelsea og Barcelona hafa áhuga á Dybala
   mið 25. mars 2020 11:00
Hafliði Breiðfjörð
Dómarinn skildi óvænt íslensku og gaf rautt spjald
Jón Þorgrímur í leik með FH.
Jón Þorgrímur í leik með FH.
Mynd: Fótbolti.net - Daníel Rúnarsson
Jón Þorgrímur Stefánsson er gestur vikunnar í podcastþættinum Miðjunni hér á Fótbolta.net. Í þættinum segir hann fyndna sögu frá þeim tíma sem hann spilaði í bandaríska háskólaboltanum rétt fyrir aldamót.

Jónsi gekk í University of West Florida í Pensacola og var yfirburðarmaður í liðinu. Í Pensacola er mikilvæg hernaðarstöð Bandaríkjamanna. Atvikið sem hann rifjar upp gerðist í úrslitaleik Conference deildarinnar þegar lið hans var að vinna 3-0.

„Ég kemst einn á móti markmanni, sóla markmanninn og er að fara að leggja boltann í netið þegar ég er straujaður niður aftanfrá. Gjörsamlega negldur niður og ég fer í hálfan hring og lendi á maganum.Þetta var mjög gróft brot," segir hann í Miðjunni.

„Ég stend upp og spyr hann fyrst á ensku: 'Are you joking?' Hann svarar 'No, play on, play on'. Þegar ég er að hlaupa til baka byrja ég að blóta honum á íslensku og var mjög orðljótur. Ég hélt ég væri tiltölulega öruggur með það. Þegar ég nálgast miðjuhringinn flautar hann, stoppar leikinn og segir mér að koma. Gefur mér rautt spjald og segir á fullkominni íslensku: 'Þú talar ekki svona við mig'."

„Ég segi: 'Ertu Íslendingur?' - 'Nei, konan mín er íslensk og ég var á herstöðinni í Keflavík í 12 ár'. Hann talaði betri íslensku en ég. Hverjar eru líkurnar á þessu? Hann var bara hermaður sem hafði tekið dómararéttindin."


Hægt er að hlusta á sögu Jónsa í þættinum sem er í heild sinni í spilaranum hér að neðan. Hann segir meðal annars frá viðbrögðum þjálfara síns við þessu og að hann og dómarinn hafi endað á að fara saman út að borða eftir leik.
Miðjan - Jónsi var frábær í fótbolta en ástríðan í viðskiptum
Athugasemdir
banner
banner
banner