Al-Hilal vill fá Salah fyrir næsta sumar - Man Utd ætlar að kaupa Branthwaite - PSG undirbýr tilboð í Duran
   mið 27. apríl 2016 13:15
Elvar Geir Magnússon
Einar Ottó: Hef mjög góða tilfinningu fyrir þessu
Einar Ottó er þjálfari Ægis.
Einar Ottó er þjálfari Ægis.
Mynd: Ægir
Einar Ottó Antonsson er þjálfari Ægis í Þorlákshöfn sem spáð er ellefta sæti í 2. deildinni í sumar. Einar Ottó er fæddur 1984 og hefur spilað með Selfossi nánast allan leikmannaferilinn. Spáin kemur honum ekki á óvart.

„Liðið hefur verið í fallbaráttunni og bjargað sér í síðasta leik. Svo það kemur ekki á óvart að þetta sé spáin," segir Einar en markmið Ægis í sumar verður að afsanna þessa spá.

„Okkar stefna er að byrja á því að afsanna spár um að við séum að fara að falla. Það er kannski númer eitt. Svo væri gott markmið að reyna að slá metið yfir besta árangur félagsins í þessari deild. Við ætlum að gera þetta að stöðugra liði en þetta hefur verið því mannabreytingarnar milli ára hafa verið miklar."

Hvernig er leikmannahópur Ægis samsettur?

„Menn koma héðan og þaðan. Það eru leikmenn hér úr Höfninni, það eru nokkrir strákar sem voru að spila með mér á Selfossi, strákar úr Reykjavík sem voru hér fyrir, lánsmenn og svo erlendir leikmenn," segir Einar.

Hópur Ægis fyrir sumarið er klár.

„Við vorum síðast að fá tvo Bandaríkjamenn sem spila með okkur, þeir voru að lenda í dag. Eins og staðan er í dag erum við ekki að leita okkur að neinum leikmönnum. Við erum sáttir."

Einar er á sínu fyrsta ári í meistaraflokksþjálfun og segist kunna vel við sig.

„Þetta er skemmtileg og góð reynsla. Það er mikil fjölbreytni í þessu. Mér lýst mjög vel í þetta og ég fer vongóður í þetta. Ég hef mjög góða tilfinningu fyrir því sem við erum að fara að gera," segir Einar Ottó Antonsson.
Athugasemdir
banner