Newcastle á eftir Scalvini - Barcelona snýr sér aftur að Díaz - Tottenham vill belgískan miðvörð
banner
   sun 28. nóvember 2021 21:09
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Ólafur með Arnari? - „Ég á erfitt með að sjá þetta"
Icelandair
Ólafur Kristjánsson.
Ólafur Kristjánsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari.
Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
KSÍ ákvað að nýta sér uppsagnarákvæði í samningi Eiðs Smára Guðjohnsen í síðustu viku. Hann verður ekki áfram aðstoðarþjálfari karlalandsliðsins.

Samkvæmt frétt DV tengjast starfslok Eiðs Smára gleðskap þar sem KSÍ bauð leikmönnum, þjálfurum og starfsliði í glas eftir leikinn gegn Norður-Makedóníu fyrr í þessum mánuði.

Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari, þarf að finna sér annan aðstoðarþjálfara. Fram kom í útvarpsþættinum Fótbolta.net í gær að nafn Ólafs Kristjánssonar hefði heyrst í tengslum við starfið. Ólafur aðstoðaði U21 landsliðið á dögunum.

„Það hefur ekki alveg gengið hjá honum að finna starf úti. Hann er reyndar að láta vita af sér. Ég talaði við góðan mann sem sagði mér frá einu giggi sem hann hafði verið að gera hosur sínar grænar fyrir - í Svíþjóð. Hann er að leita, að reyna að koma sér aftur í bransann," sagði Tómas Þór Þórðarson.

„Stóra spurningin er: Sér maður prófessorinn sem aðstoðarþjálfara?"

„Ég heyrði að hann hefði skinið á æfingasvæðinu (með U21 landsliðinu)... þetta var skammtímaverkefni, ein ferð. Ég á erfitt með að sjá þetta því ég sé hann bara fyrir mér sem aðalþjálfara. Arnar Viðarsson er óreyndur þjálfari. Að Óli Kristjáns detti í að vera aðstoðarmaður hans, ég sé það ekki," sagði Elvar Geir Magnússon.

„Ég væri ánægður ef þetta myndi ganga upp. Óli er kominn margfalt lengra í þjálfarafræðunum en Arnar, þrátt fyrir að Arnar hafi átt margfalt betri leikmannaferil. Er ekki alveg morgunljóst samt að Arnar þurfi reynslubolta?" spurði Tómas.

„Ég held að landsliðið þurfi það," sagði Elvar.

Einnig hefur verið rætt og skrifað um erlendan aðstoðarþjálfara. Arnar er búsettur í Belgíu og með tengslanet þar.

Lars Lagerback, fyrrum landsliðsþjálfari Íslands, var í þjálfarateyminu til að byrja með og aðstoðaði Arnar. En það samstarf gekk ekki upp. Tómas telur að Lars hefði getað hjálpaði Arnari mikið.

„Ég held að hann hafi gert óleik þegar hann lét Lars fara. Það er mjög skrítið að vera svona óreyndur þjálfari og hafna svona mikilli reynslu. Hann þarf einhverja reynslu með sér. Hann þarf mann sem hefur fleiri ár undir belti og segir nei við hann. Arnar verður að geta tekið því, það er hluti af því að læra sem þjálfari. Ég sé ekki þennan gæja heima - þennan reynslubolta sem er ekki með drauminn um að verða aðalþjálfari sjálfur, eins og Óli Kristjáns."

Hægt er að hlusta á útvarpsþáttinn í heild sinni hér að neðan.
Útvarpsþátturinn - Rangnick og Peningar
Athugasemdir
banner
banner