
"Ég er 100% sammála því að það er þessi 20-25 mínútna kafli í byrjun leiks sem kostar okkur leikinn í dag," sagði Ian Jeffs, þjálfari Þróttar, eftir 2-1 tap gegn Selfossi í kvöld.
Lestu um leikinn: Selfoss 2 - 1 Þróttur R.
Þróttarar byrjuðu leikinn illa og voru lentir 2-0 undir eftir rúmar 20 mínútur. Seinna markið var ákaflega klaufalegt en þá varð leikmaður Þróttar fyrir því óláni að setja boltann í eigið net.
"Þetta seinna mark er bara algert bíó. Ég þarf að horfa á það aftur. Ég trúði ekki mínum eigin augum. Þetta er eitthvað sem á bara að gera í 7.flokki."
Eftir þessa döpru byrjun stigu Þróttarar upp og voru betri aðilinn seinni hluta leiksins. "Ég er ánægður með okkur frá svona 35. mínútu. Þá vorum við betra liðið. Þeir misstu mann af velli með rautt en mér fannst við yfirhöndina áður en það gerist. En fótbolti snýst um að skora mörk og halda sínu marki hreinu og við erum ekki að gera það nógu vel," segir þjálfarinn og bætir við.
"Ég er bara mjög svekktur að hafa ekki náð í að minnsta kosti eitt stig í dag. Spilamennskan var góð en við vorum ekki að nýta færin. Svo fengum við á okkur þessi klaufamörk. Ég man ekki eftir öðrum færum frá Selfossi."