Zidane hefur augastað á Man Utd - Guimaraes áfram hjá Newcastle - Bayern hefur ekki rætt við Rangnick
   mán 03. ágúst 2020 16:15
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Heimild: Útvarpsþátturinn Fótbolti.net | Mín skoðun 
Nonni virðir ákvörðun Unnars - Fer hann í Fylki í glugganum?
Unnar Steinn, verðandi leikmaður Fylkis.
Unnar Steinn, verðandi leikmaður Fylkis.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Nonni.
Nonni.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Úr leik með Fram síðasta vor.
Úr leik með Fram síðasta vor.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í síðustu viku var tilkynnt að Unnar Steinn Ingvarsson, leikmaður Fram, væri búinn að skrifa undir samning við Fylki.

Sjá einnig:
Unnar Steinn frá Fram í Fylki (Staðfest)

Unnar er nítján ára miðjumaður sem er að taka þátt í sínu fjórða tímabili með Fram. Hann verður tvítugur í nóvember og hefur þegar leikið 51 leik í 1. deild og á að baki 14 unglingalandsleiki.

Virðir ákvörðun Unnars
Jón Þórir Sveinsson, þjálfari Fram, var spurður út í félagaskiptin í hlaðvarpsþættinum Mín skoðun síðastliðinn föstudag. Nonni var spurður hvort þetta væri ný tilkomið að Fylkir hefði verið í viðræðum við Unnar.

„Það er nýtilkomið að hann lét okkur vita að hann hafi ákveðið að samþykkja samning hjá Fylki. Staðan var þannig að samningurinn við okkur var að renna út [eftir tímabilið] og Fylkismenn voru búnir að láta okkur vita að þeir vildu tala við hann," sagði Nonni.

„Við hjá Fram vorum búin að vera í samningaviðræðum við Unnar því við vildum halda honum en á endanum ákvað hann að taka þetta skref á sínum ferli og við verðum að virða þá ákvörðun hans. Unnar er góður drengur og fínn fótboltamaður. Við hefðum svo sannarlega viljað halda áfram vegferðinni með honum hér hjá Fram til þess að veita honum þá fullnægingu að vera Pepsi-leikmaður en hann tók þessa ákvörðun og ég virði það við hann. Virði líka heiðarleikann að koma fram og segja við okkur að staðan væri svona."

Hrifnir af leikmanninum og stefnu Fylkis
Vistaskiptin voru til umræðu í útvarpsþættinum Fótbolti.net á X-inu á laugardag.

„Þetta er mjög spennandi og gaman að sjá Fylki á leikmannamarkaðnum, þeir eru að sækja unga og spennandi stráka og eru greinilega að 'scouta' vel. Ég set peninginn á það að Ólafur Ingi Skúlason sé með puttana í þessu," sagði Ingólfur Sigurðsson um félagaskiptin og nefndi í kjölfarið þá Arnór Gauta Jónsson og Arnór Borg Guðjohnsen sem Fylkir fékk til liðs við sig fyrr í sumar.

„Blikar höfðu sýnt Unnari mikinn áhuga og hann hafði úr einhverjum félögum að velja. Hann ákveður að fara í þetta næsta skref, eins og pabbi hans [Ingvar Ólafsson] gerði á sínum tíma. Ég er mjög hrifinn af þessum leikmanni og spurning hvernig hann mun fóta sig. Hann er pottþétt að fara strax í lykilhlutverk hjá Fylkismönnum," sagði Elvar Geir Magnússon.

„Þeir gera sér grein fyrir að þeir geta ekki keppt við stóru liðin um einhverja spikfeita bita og fara því aðra leið sem er virðingarvert," sagði Benedikt Bóas Hinriksson.

Gæti Unnnar farið í Fylki í glugganum?
Möguleikinn er fyrir hendi að Unnar skipti yfir áður en tímabilinu líkur og var sá möguleiki ræddur bæði í útvarpsþættinum sem og í Mín skoðun.

„Unnar er [líklega] ekki að fara strax í Fylki en ég hef samt heyrt að Fylkismenn séu að reyna fá hann fyrr til sín og það sé vilji leikmannsins líka," sagði Elvar Geir í útvarpsþættinum Fótbolti.net.

Nonni var þá spurður í þættinum Mín Skoðun hvort að Unnar yrði hjá Fram út tímabilið.

„Hann er samningsbundinn út tímabilið og því á ég ekki von á öðru en það verður að koma í ljós. Ég veit ekki hvaða óskir Fylkismenn hafa með það, þeir eru pínu laskaðir en eins og staðan er í dag þá er hann bundinn út tímabilið og ég vona að hann verði hér þann tíma," sagði Nonni að lokum.
Bikaryfirferð - ÍBV og Fram að gera gott mót
Athugasemdir
banner
banner
banner