þri 06. apríl 2021 17:48
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Þjálfari í Noregi sakaður um fordóma - „Tifandi tímasprengja"
Henrik Pedersen.
Henrik Pedersen.
Mynd: Getty Images
Henrik Pedersen, þjálfari Stromsgodset í Noregi, fær að halda starfi sínu hjá félaginu eftir að hafa verið ásakaður um kynþáttafordóma. Stromsgodset kveðst hafa rannsakað málið innanbúðar og ætlar sér að halda Pedersen í starfi eftir það.

Eurosport hefur heimildarmann innan leikmannahóps Stromsgodset sem segir að Pedersen hafi kallað sig 'apa' og 'negra'.

Stromsgodset segist hafa rannsakað málið og ekki fundið sannanir um það, en félagið segir samt sem áður að óheppileg orð hafi verið notuð af hálfu þjálfarans. Það hafi verið orð eins 'afrískur strákur' um leikmenn í hópnum. Stromsgodset ætlar samt sem áður ekki að reka þjálfarann, stjórn félagsins telur það ekki vera brottrekstrarsök.

Talið er að sjö leikmenn í hópnum hafi látið stjórn félagsins vita af því að þjálfarinn hafi verið með kynþáttafordóma.

Englendingurinn Ben Wells, sem fjallar um norska boltann fyrir Football Radar, hefur fjallað um málið á Twitter.

„Það er tifandi tímasprengja hvenær Pedersen er rekinn eða fer. Úrslitin á vellinum hafa ekki verið góð upp á síðkastið ofan á þessi vandræði utan vallar," skrifar Wells en hann skilur ekki hvernig norska félagið getur haldið honum í starfi.

„Miðað við það sem hefur komið upp í dag og miðað við það sem hann á að hafa sagt, þá getur Stromsgodset einfaldlega ekki sópað þessu undir teppið. Þetta á ekki að líðast í fótbolta, og ekki í samfélaginu almennt. Þetta er ljót staða."

Pedersen, sem hefur stýrt Stromsgodset frá 2019, sendi tölvupóst á norska fjölmiðilinn VG þar sem hann sagðist vera viss um það að hann yrði hreinsaður af sök.

„Ég hef ekki verið í neinum vafa um að ásakanir séu ástæðulausar og að ég yrði hreinsaður af sök. Þetta hafa verið streitumiklir dagar," skrifaði Pedersen.

Tveir íslenskir leikmenn eru á mála hjá Stromsgodset, varnarmaðurinn Ari Leifsson og kantmaðurinn Valdimar Þór Ingimundarson.


Athugasemdir
banner
banner
banner