„Ég ætla að byrja á að óska fyrst Þórsurum til hamingju með þrjú stig, þetta fór 2-0 en mér fannst mjög ósanngjarnt að tapa í dag,'' sagði Dragan Stojanovic, þjálfari Dalvíkur/Reynis, eftir 2-0 tap gegn Þór í Lengjudeild karla í dag.
Lestu um leikinn: Þór 2 - 0 Dalvík/Reynir
Dalvíkurliðið fékk sannarlega sénsa til að komast á blað, en allt kom fyrir ekki. Stöngin og Aron Birkir Stefánsson, markvörður Þórs, komu í veg fyrir að gestirnir fengju tækifæri til þess að fagna marki.
„Við fáum, ef ég man rétt, fjögur dauðafæri. Þrisvar sinnum einn á móti markmanni og fjórða skiptið var skot í stöng og ég bara skil ekki hvernig við vinnum ekki þennan leik í dag,'' sagði Dragan.
Var erfitt að stappa stálinu í liðið fyrir þennan leik - þar sem að ljóst er að Dalvík/Reynir spilar í 2. deild á næstu leiktíð?
„Neinei, það var ekki erfitt. Þetta er eins og allir vita pínu "derby" leikur og nei, það var ekki erfitt að mótivera strákana.''
Hvað ber framtíðin í skauti sér fyrir Dragan og Dalvík/Reyni? Er áhugi fyrir áframhaldandi samstarfi?
„Dalvík/Reynir er mjög flottur klúbbur og með frábæra aðstöðu. Og mjög flotta stjórn sem að vilja gera allt fyrir lið sitt, en eins og ég segi - það bara kemur í ljós,'' sagði Dragan og brosti.