Kári og Kormákur/Hvöt gerðu 1-1 jafntefli í miklum baráttuleik í 3. deildinni í dag.
Eftir um 20 mínútna leik fengu tveir leikmenn að líta beint rautt spjald, Marinó Hilmar Ásgeirsson úr liði Kára og Alberto Sanchez Montilla úr liði Kormáks/Hvatar. Atvikið náðist á mynd og er Alberto sakaður um að hafa bitið Hilmar Halldórsson í fótinn.
Marinó brást illa við þegar honum sýndist Alberto taka bita af Hilmari og fékk rautt spjald fyrir sín viðbrögð. Hilmar sjálfur gat haldið leik áfram en er á leið í stífkrampasprautu í fyrramálið.
„Vonum bara að við svona sturlun fylgi löng refsing, því enginn vill sjá bítandi leikmenn á fótboltavellinum," segir meðal annars í tilkynningu frá Kára.
Mönnum var heitt í hamsi í leiknum og voru í heildina fimm leikmenn reknir af velli, þrír úr liði Kormáks/Hvatar og tveir úr liði Kára.