Garðar Örn Hinriksson sem um árabil var einn besti dómari landsins og Daníel Hjaltason sem spilaði á sínum tíma með Víkingi, Val og Leikni hafa tekið höndum saman sem tónlistarmenn og munu gefa saman út plötu síðar á árinu.
Dúettinn hefur fengið nafnið HinnRYK og í dag var að koma út fyrsta lag dúettsins, Let Me In sem þegar má heyra á Spotify. Síðar á árinu er væntanleg breiðskífa frá HinnRYK en tónlistin er vel blönduð og má finna í tónlistinni popp, rokk, danstónlist, hipphopp, rapp, fönk og fleira.
„Við Danni höfðum þekkst lengi en hann hefur búið í Noregi undanfarin 12 ár. Ég hafði samband við hann í upphafi ársins og bað hann um að fara yfir texta við lag hjá mér, þannig varð þetta til," útskýrir Garðar Örn í samtali við Fótbolta.net í dag.
Garðar og Daníel höfðu fram að því verið að semja tónlist hvor í sínu lagi. Garðar er þekktastur í tónlistinni með hljómsveitinni Url sem meðal annars sló í gegn með lagið Sykurlaust í upphafi aldarinnar. Eftir að hann og Daníel fóru að tala saman var ákveðið að fara út í samstarf og gera tónlist saman.
„Við komum úr sitthvorri áttinni með þetta. Hann er allur í rappinu, hipphoppinu og R&B en ég alveg hinum megin í rokkinu. Við smullum samt saman og náðum að mætast á miðri leið úr varð þetta lag og mörg önnur lög sem koma væntanlega út í lok ársins," sagði Garðar Örn.
Garðar og Daníel kynntust þegar þeir unnu saman í gamla daga en þeir mættust stundum á vellinum þegar Garðar dæmdi leiki sem Daníel spilaði eins og leik Breiðabliks og Víkings sumarið 2003 þegar hann þurfti að spjalda vin sinn.
„Danni var mjög heiðarlegur leikmaður en ég man að ég þurfti einu sinni að spjalda hann í gamla daga. Mér fannst það rosalega erfitt en hann átti það skilið og fékk því að líta gula spjaldið," sagði Garðar að lokum.
Hægt er að hlusta á lagið á Spotify. Smelltu hér til að hlusta
Athugasemdir