
„Ég er bjartsýnn fyrir þessa tvo leiki. Um þetta snýst þetta í dag, ekkert annað. EM er langt í burtu. Það eru þessir tveir leikir sem eru mikilvægir og það er það eina sem við erum að spá í núna," sagði Þorsteinn Halldórsson, landsliðsþjálfari, á fréttamannafundi í dag.
Það styttist í Evrópumótið en fyrst eru það tveir mikilvægir leikir gegn Noregi og Frakklandi í Þjóðadeildinni.
Það styttist í Evrópumótið en fyrst eru það tveir mikilvægir leikir gegn Noregi og Frakklandi í Þjóðadeildinni.
Þorsteinn var á fundinum spurður að því hvort hann væri bjartsýnn fyrir EM miðað við stöðuna á liðinu í dag. Hann vildi lítið tala um EM þar sem einbeitingin er á leikina sem eru framundan, næstu tvo leiki.
Íslenska liðið hefur ekki unnið í svolítið langan tíma núna en landsliðsþjálfarinn segir það pirrandi.
„Auðvitað þolir maður ekki að vinna ekki leikina. Það er alltaf markmiðið, að vinna og það er pirrandi þegar þú vinnur ekki. Við vissum að við værum að fara í mjög erfiða leiki núna og völdum æfingaleiki út frá því. Við ætluðum að hafa mjög krefjandi leiki og við vissum að það gæti brugðið til beggja vona varðandi það að við værum að vinna eða ekki. Ég á von á því að þetta hafi gefið okkur mikið og í framhaldinu þurfum við að fara að vinna. Við ætlum að vinna í Noregi eftir tvær vikur og ég hef fulla trú á því að við gerum það. Áhyggjuefni? Þetta er mest bara pirrandi," sagði Þorsteinn en hann hefur trú á því að næsti sigur komi í næsta glugga.
Þorsteinn var í kjölfarið spurður út í sóknarleik liðsins sem var flottur í 3-3 jafnteflinu gegn Sviss í síðasta leik. En svo aðrir leikir í Þjóðadeildinni verið lokaðir, eins og til dæmis í markalausum jafnteflum gegn Sviss og Noregi. Þorsteinn var spurður út í þennan mun á milli leikja.
„Fótbolti er bara svona. Þegar þú lendir undir og þarft að sækja, þá hefurðu engu að tapa. Ef leikurinn er jafn er engin ástæða fyrir þig að opna allt og taka sénsa. Ef þú ert undir, þá skiptir ekki máli hvort þú tapar 1-0 eða 2-0 og þá getur þú sótt. Mér fannst við ekki ná að sleppa af okkur beislinu í 0-0 jafnteflinu við Sviss varðandi að vera skapandi sóknarlega. Fótbolti er bara svona, stundum eru leikirnir lokaðir og landsleikir eru oft mjög taktískir og þú ert ekkert endilega að fara að opna þig og búa til færi fyrir andstæðingana. Þú þarft að nýta þá möguleika sem þú ert að skapa og færð."
„Stundum skorar maður, stundum ekki. Þannig er þetta bara. Ég get alveg lofað þér því að við erum ekki að fara að spila eins og KR í karlaboltanum sko," sagði Þorsteinn léttur að lokum en KR hefur spilað alveg gríðarlegan sóknarleik í upphafi sumarsins og það hefur verið mikið opið til baka hjá þeim.
Athugasemdir