Amorim langt frá því að hætta - Wirtz fundaði með City - Ensk stórlið vilja Rodrygo
   fim 15. maí 2025 13:01
Elvar Geir Magnússon
Bergvall heldur ekki með gegn Man Utd - Skörð hoggin í miðju Spurs
Lucas Bergvall.
Lucas Bergvall.
Mynd: EPA
Það eru stór skörð hoggin á miðsvæði Tottenham fyrir úrslitaleik Evrópudeildarinnar í Bilbao. Tottenham mætir Manchester United næsta miðvikudagskvöld.

Tottenham hefur þrívegis unnið Manchester United á þessu tímabili en James Maddison og Dejan Kulusevski sem léku lykilhlutverk í þeim sigrum verða ekki með í úrslitaleiknum vegna meiðsla.

Ange Postecoglou stjóri Tottenham staðfesti þá í morgun að Lucas Bergvall yrði væntanlega ekki klár fyrir leikinn.

Kulusevksi hefur gengist undir aðgerð og verður frá næstu mánuði, hann mun mögulega missa af byrjun næsta tímabils. Þá er Timo Werner einnig á meiðslalistanum.

„Ég finn til með þeim sem eru meiddir. Því miður er þetta að gerast á leiðinlegum tíma ársins," sagði Postecoglou á fréttamannafundi í morgun.

Það er feikilega mikið í húfi í úrslitaleiknum og má segja að tímabil beggja liða sé undir. Sigurliðið mun ekki bara hljóta eftirsóttan titil heldur einnig komast bakdyramegin í Meistaradeildina.
Athugasemdir
banner
banner