Delap nálgast Man Utd - Rift við Laporte - Arsenal og Liverpool berjast um Huijsen
   mið 14. maí 2025 20:08
Brynjar Ingi Erluson
Mjólkurbikarinn: ÍBV sló KR úr leik - Alghoul með þrennu fyrir Keflvíkinga
Oliver Heiðarsson átti frábæran leik hjá Eyjamönnum
Oliver Heiðarsson átti frábæran leik hjá Eyjamönnum
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Omar Sowe var hættulegur í sóknarleik ÍBV
Omar Sowe var hættulegur í sóknarleik ÍBV
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Muhamed Alghoul skoraði þrennu fyrir Keflavík
Muhamed Alghoul skoraði þrennu fyrir Keflavík
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson
Keflavík og ÍBV eru bæði komin áfram í 8-liða úrslit Mjólkurbikars karla eftir góða sigra í kvöld.

Muhamed Alghoul lék á als oddi í 5-2 sigri Keflvíkinga á Víkingi Ólafsvík.

Það tók hann ekki nema tæpar fjórar mínútur að koma Keflvíkingum á bragðið. Ásgeir Páll Magnússon átti laglegan bolta á fjær á Alghoul sem kom boltanum í netið en Ólafsvíkingar svöruðu fjórtán mínútum síðar er Luis Romero fékk langan bolta fram völlinn. Sindri Kristinn Ólafsson misreiknaði þetta alsvakalega og missti bæði Romero og boltann framhjá sér áður en sá síðarnefndi lagði boltann í autt markið.

Ólsarar komust yfir á 28. mínútu og aftur þökk sé gjafmildi Keflvíkinga en Gunnlaugur Fannar Guðmundsson tapaði boltanum og var það Kwame Quee sem nýtti sér það með laglegu marki upp við stöng.

Keflvíkingar skoruðu mikilvægt mark undir lok fyrri hálfleiksins er Ari Steinn Guðmundsson fékk boltann á fjærstönginni eftir fyrirgjöf frá vinstri og sá til þess að liðin skildu jöfn þegar gengið var til búningsherbergja.

Í þeim síðari tókst Keflvíkingum að valta yfir gestina með þremur mörkum á þrettán mínútum.

Kári Sigfússon skoraði á 48. mínútu áður en Alghoul gerði annað mark sitt níu mínútum síðar. Hann fullkomnaði þrennu sína á 61. mínútu er Keflavík fékk vítaspyrnu.

Jón Kristinn Elíasson varði vítaspyrnu frá Alghoul en boltinn datt aftur fyrir framherjann sem klikkaði ekki á frákastinu.

Flottur 5-2 sigur hjá Keflvíkingum sem verða í pottinum þegar dregið verður í 8-liða úrslit.

Eyjamenn kláruðu KR-inga í restina

ÍBV fer með Keflavík í 8-liða úrslitin eftir að hafa slegið KR úr leik, 4-2, í Laugardalnum.

Leikurinn var stórskemmtilegur þar sem KR hélt mikið í boltann og skapaði sér mörg færi en Eyjamenn náðu að beita skyndisóknum á móti.

Atli Sigurjónsson kom KR-ingum yfir á 29. mínútu. Aron Þórður Albertsson átti glimrandi flotta sendingu inn á Atla sem kláraði vel og var Atli nálægt því að tvöfalda forystuna mínútu síðar en boltinn hafnaði í þverslánni.

Eyjamenn svöruðu strax eftir það með jöfnunarmarki. Þorlákur Breki Baxter keyrði upp vænginn af harðfylgi og kom boltanum síðan á Oliver Heiðarsson sem skoraði.

Gestirnir voru að vinna mikið með sömu uppskriftina í leiknum með því að þrykkja löngum boltum fram völlinn og náðu Eyjamenn þannig að komast í forystu á 64. mínútu.

Sowe átti frábæra fyrstu snertingu áður en hann kom honum á Hermann Þór Ragnarsson sem kláraði færið vel.

Guðmundur Andri Tryggvason jafnaði átta mínútum síðar. KR-ingar tóku hornspyrnuna stutt á Aron sem kom honum á Gyrði Hrafn Guðbrandsson. Hann náði að skalla hann einhvern veginn aftur fyrir sig á Guðmund sem skilaði boltanum yfir línuna.

Dramatíkinni var langt í frá lokið. Sowe skoraði þriðja mark Eyjamanna á 81. mínútu. Oliver kom með fastan bolta frá hægri inn á Sowe sem náði skotinu. Halldór Snær Georgsson var í boltanum sem lak í netið og Eyjamenn komnir í frábæra stöðu.

Þeir gerðu síðan út um leikinn á lokamínútunum. Sowe fór í frábæra pressu á Gyrði sem reyndi að hreinsa frá marki. Nökkvi Már Nökkvason var mættur og náði að skalla honum inn á Oliver sem var kominn einn gegn markverði og hafði hann betur í þeirri baráttu og skoraði af öryggi.

Oliver gat fullkomnað þrennuna nokkrum mínútum síðar er hann fékk boltann frá Sowe en Halldór varði í þetta sinn og neitaði honum um þrennuna.

Lokatölur í Laugardalnum, 4-2, Eyjamönnum í vil, en KR-ingar eru úr leik.

KR 2 - 4 ÍBV
1-0 Atli Sigurjónsson ('29 )
1-1 Oliver Heiðarsson ('32 )
1-2 Hermann Þór Ragnarsson ('64 )
2-2 Guðmundur Andri Tryggvason ('72 )
2-3 Omar Sowe ('81 )
2-4 Oliver Heiðarsson ('90 )
Lestu um leikinn



Keflavík 5 - 2 Víkingur Ó.
1-0 Muhamed Alghoul ('4 )
1-1 Luis Romero Jorge ('16 )
1-2 Kwame Quee ('28 )
2-2 Ari Steinn Guðmundsson ('44 )
3-2 Kári Sigfússon ('48 )
4-2 Muhamed Alghoul ('57 )
4-2 Muhamed Alghoul ('61 , misnotað víti)
5-2 Muhamed Alghoul ('61 )
Lestu um leikinn


Athugasemdir
banner
banner
banner