Amorim langt frá því að hætta - Wirtz fundaði með City - Ensk stórlið vilja Rodrygo
   fim 15. maí 2025 09:30
Elvar Geir Magnússon
Haaland: Hörmulegt og leiðinlegt tímabil
Haaland er ekkert að sykurhúða hlutina.
Haaland er ekkert að sykurhúða hlutina.
Mynd: EPA
Erling Haaland, markaskorari Manchester City, lýsir þessu tímabili sem hörmung og segir það hafa verið leiðinlegt. Hann vonast þó til þess að ljúka því með titli.

Fyrir mörg félög yrði það jákvætt tímabil að komast í úrslitaleik FA-bikarsins og vera á barmi þess að innsigla Meistaradeildarsætið en þannig er það ekki hjá City.

„Þetta hefur verið erfitt tímabil. Það er ekki góð tilfinning að tapa svona mörgum leikjum. Það er leiðinlegt. Við verðum að enda þetta vel og fá bikar. Það er góður vani að fara á Wembley og það er alltaf mikilvægt að vinna bikara. Þetta hefur verið hörmulegt tímabil en við eigum eftir að spila bikarúrslitaleik," segir Haaland.

City er 18 stigum á eftir meisturum Liverpool, liðið situr í fjórða sæti ensku úrvalsdeildarinnar. City tapaði gegn Real Madrid í Meistaradeildinni og féll úr leik gegn Tottenham í deildabikarnum.

„Eftir að þú hefur unnið fjóra meistaratitla í röð þá er ekki ánægja með tímabilið þegar þú vinnur ekki. Við höfum ekki verið nægilega góðir í deildinni. Hver einn og einasti leikmaður hefur ekki staðið sig nægilega vel. En við getum ekki dvalið við fortíðina, við þurfum að horfa fram veginn."

Á laugardaginn klukkan 15:30 mun City mæta Crystal Palace í bikarúrslitaleiknum á Wembley.

„Það er mjög erfitt að mæta Crystal Palace. Við gerðum 2-2 jafntefli við þá á Selhurst Park í dsember og þeir byrjuðu vel á Etihad þó við unnum á endanum 5-2. Þetta er flott lið með gæðaleikmenn," segir Haaland.
Athugasemdir
banner