
„Mjög ánægður strax í byrjun þar sem við skorum gott mark og erum komnir með forystu. Svo bara slokknar á því og ég veit ekki hvort að menn hafi haldið að þetta kæmi að sjálfu sér og ætli sér að fara á sjálfstýringu en það varð raunin.“ Sagði Haraldur Freyr Guðmundsson þjálfari Keflavíkur um fyrri hálfleikinn í 5-2 sigri Keflvíkinga á Víking Ó. í 16 liða úrslitum Mjólkurbikarsins í kvöld þar sem Keflvíkingar voru í töluverðum vandræðum framan af fyrri hálfleik.
Lestu um leikinn: Keflavík 5 - 2 Víkingur Ó.
Keflvíkingar bættu þó vel í í hálfleik eftir að liðin höfðu gengið til búningsherberja i jafnri stöðu 2-2. Haraldur var því að vonum ánægður með síðari hálfleikinn.
„Hægt og bítandi vinnum við okkur inn í fyrri hálfleikinn og náum að jafna. Svo í síðari hálfleik getum við sagt að það komi allt annað lið inn á völlinn og við vinnum verðskuldað hérna í dag 5-2 og hefðum getað bætt við mörkum.“
Keflvíkingar skoruðu snemma í báðum hálfleikjum en helsti munurinn var sá að liðið fylgdi því eftir í þeim síðari og bætti í pressu sína ef eitthvað er.
„Við vorum miklu nær þeim og aggresívari. Við klukkum þá og erum byrjaðir að hlaupa og vinna fyrsta boltann og annan boltann sem eru grunnatriði í fótbolta sem verða að vera til staðar. Og mér fannst við gera það vel í síðari hálfleik."
Keflavík verður í pottinum þegar dregið verður í 8 liða úrslit og var svar Haraldar um mögulega óska mótherja ekki flókið.
„Mér er alveg sama, bara að við fáum heimaleik. “
Allt viðtalið við Harald má sjá í spilaranum hér að ofan
Athugasemdir