Amorim langt frá því að hætta - Wirtz fundaði með City - Ensk stórlið vilja Rodrygo
   fim 15. maí 2025 07:30
Brynjar Ingi Erluson
Mazraoui: Ég er ekki vanur því að tapa
Mynd: EPA
Noussair Mazraoui, leikmaður Manchester United á Englandi, segir að þetta hafi verið mjög sársaukafullt tímabil, en að það eina í stöðunni sé að komast í gegnum þessa erfiðleika.

Man Utd keypti Mazraoui frá Bayern München á síðasta ári, en þar fékk liðið mjög sigursælan leikmann í honum og Matthijs De Ligt, sem voru báðir vanir því að vinna fullt af titlum.

Gengið United í deildinni hefur verið skelfilegt á tímabilinu og er liðið við fallsvæði, en sem betur fer voru þrjú neðstu lið deildarinnar sérstaklega slök og því aldrei hætta á falli.

Mazraoui segist aldrei hafa upplifað þetta en hann er þó viss um að hann muni komast í gegnum það.

„Særir þetta mig? Auðvitað. Ég kem frá félögum þar sem ég er ekki vanur því að tapa og ég mun aldrei venjast því hvar sem ég spila og það sama á við um þetta félag. Þetta er sársaukafullt augnablik, en lífið er stundum þannig og maður verður bara að þrauka í gegnum það,“ sagði Mazraoui.

Það góða við tímabilið hjá United er auðvitað Evrópudeildin en það er komið alla leið í úrslit gegn Tottenham. Það er líklega einn og ef ekki mikilvægasti leikur beggja félaga til fjölda ára þar sem Meistaradeildarsæti er undir.

„Tímabilið í Evrópudeildinni verður árangursríkt, en það sama á ekki við um ensku úrvalsdeildina. Þetta eru staðreyndirnar og maður þarf að súpa seiðið af því. Við spilum í mörgum keppnum og í deildinni spilar maður í hverri einustu viku þannig fólk hallast auðvitað frekar að henni,“ sagði Mazraoui í lokin.

Man Utd mætir Tottenham eftir viku á heimavelli Athletic Bilbao á Spáni og getur United fegrað tímabilið aðeins með því að landa Evrópudeildartitlinum.
Athugasemdir
banner
banner