Ítalski framherjinn Moise Kean var funheitur með Fiorentina á síðustu leiktíð í Serie A þó hann hafi ekki farið sérlega vel af stað á nýrri leiktíð.
Hann á eftir að skora eða leggja upp eftir þrjár fyrstu umferðirnar í ítölsku deildinni en hann getur þó glaðst yfir því að rapplag með honum er eitt af 109 lögum sem hafa verið valin fyrir næstu útgáfu af EA FC fótboltaleiknum geysivinsæla, sem hét áður FIFA.
EA fótboltaleikirnir eru meðal annars þekktir fyrir að vera með skemmtilega tónlist, þar sem má finna mikið af efnilegum og spennandi tónlistarmönnum sem eru ekki ennþá orðnir sérlega þekktir.
Í ár eru 27 áður óútgefin lög sem verða með í EA FC tölvuleiknum og er nýtt lag frá Moise Kean eitt þeirra. Tónlistarmaðurinn heimsfrægi Ed Sheeran á einnig lag í leiknum sem er óútgefið.
Þrátt fyrir að vera fyrsti fótboltamaðurinn sem fær lag með sér í EA FC tölvuleikinn þá er hann langt frá því að vera fyrsti fótboltamaðurinn sem hefur reynt fyrir sér í tónlistarheiminum. Eitt frægasta dæmið um það er Memphis Depay, markahæsti leikmaður í sögu hollenska landsliðsins.
Hér fyrir neðan má sjá lag með Kean en þetta er ekki lagið sem verður í tölvuleiknum. Það er enn óútgefið.
Kean er 25 ára gamall og hefur skorað 10 mörk í 23 landsleikjum.
Athugasemdir