Manchester City hefur vísað starfsmanni frá sem klæddist Manchester United treyju þegar hann var við störf á Etihad leikvanginum á grannaslagnum um helgina.
Starfsmaðurinn var að þjóna á barnum og komst félagið að þessu athæfi í gegnum færslu á samfélagsmiðlinum X.
„Algjört grín að Man City leyfi starfsmanni að klæðast Man Utd treyju á þessum degi," stóð í færslunni á X og fylgdi mynd af einstaklingnum með þar sem hann afhenti áhorfendum bjór.
Stuðningsreikningur fyrir aðdáendur Man City á X svaraði færslunni: „Þakka þér fyrir að upplýsa okkur um þetta mál. Við getum staðfest að þessi einstaklingur hefur verið fjarlægður úr stöðu sinni."
Upprunalegi aðgangurinn sem birti myndina er ekki lengur til á X eftir að hafa orðið fyrir gríðarlegu áreiti af hálfu annara notenda.
Man City stóð uppi sem sigurvegari gegn Man Utd þar sem Phil Foden skoraði eitt og Erling Haaland tvö í 3-0 sigri.
Man City neitaði að svara fyrirspurnum The Guardian um málið.
Athugasemdir