Barcelona og Real Madrid vilja Bernardo Silva - Gravenberch til Tyrklands? - Mikill áhugi á Nacho
   sun 18. febrúar 2024 16:24
Brynjar Ingi Erluson
Sjöunda deildarmark Andra Lucasar - Kolbeinn hetjan í ótrúlegum leik
Andri Lucas skoraði sjöunda deildarmark sitt
Andri Lucas skoraði sjöunda deildarmark sitt
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Kolbeinn Þórðarson skoraði mikilvægt sigurmark Gautaborgar
Kolbeinn Þórðarson skoraði mikilvægt sigurmark Gautaborgar
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir
Andri Lucas Guðjohnsen og Kolbeinn Þórðarson voru báðir á skotskónum í Evrópuboltanum í dag.

Andri Lucas skoraði sjöunda deildarmark sitt fyrir Lyngby á tímabilinu er hann kom liðinu í 1-0 gegn Nordsjælland í dönsku úrvalsdeildinni.

Markið var laglegt. Hann fékk skoppandi bolta í gegn áður en hann lyfti honum yfir markvörð heimamanna.

Góð helgi hjá Guðjohnsen-fjölskyldunni en Sveinn Aron, bróðir Andra, skoraði einmitt fyrsta mark sitt fyrir þýska félagið Hansa Rostock í gær.

Kolbeinn Birgir Finnsson var einnig í byrjunarliði Lyngby og þá kom Sævar Atli Magnússon inn af bekknum í síðari hálfleik í naumu, 3-2, tapi. Lyngby er í 8. sæti með 20 stig.

Þórir Jóhann Helgason spilaði allan leikinn fyrir Eintracht Braunschweig í 1-0 tapi gegn toppliði St. Pauli í þýsku B-deildinni í dag. Braunschweig er í 15. sæti með 23 stig.

Stefán Ingi Sigurðarson var þá í byrjunarliði Patro Eisden sem gerði markalaust jafntefli við U23 ára lið Anderlecht í belgísku B-deildinni. Patro Eisden er í 6. sæti með 37 stig.

Kristian Nökkvi Hlynsson var í byrjunarliði Ajax sem gerði 2-2 jafntefli við NEC Nijmegen í Amsterdam. Íslenski landsliðsmaðurinn fór af velli undir lok leiks, en Ajax er í 5. sæti deildarinnar með 36 stig og án sigurs í síðustu þremur deildarleikjum.

Kolbeinn hetjan í bikarnum

Kolbeinn Þórðarson var í liði Gautaborgar sem vann magnaðan 4-3 endurkomusigur á United Nordic í riðlakeppni sænska bikarsins í dag.

Gautaborg var 3-2 undir þegar tæpar tuttugu mínútur voru eftir en liðið náði inn jöfnunarmarki á þriðju mínútu í uppbótartíma áður en Kolbeinn gerði sigurmarkið tveimur mínútum síðar.

Valgeir Valgeirsson var í byrjunarliði Örebro sem tapaði fyrir AIK, 3-1, í bikarnum og þá var Davíð Kristján Ólafsson í liði Kalmar sem vann Gefle, 3-1.
Athugasemdir
banner
banner
banner