fös 22. janúar 2021 17:16
Victor Pálsson
Neita því að Ronaldo sé markahæsti leikmaðurinn
Mynd: Getty Images
Cristiano Ronaldo er ekki markahæsti leikmaður frá upphafi að sögn tékknenska knattspyrnusambandsins.

Ronaldo skoraði sitt 760. mark á ferlinum á dögunum er Juventus vann Napoli í ítalska Ofurbikarnum, 2-0.

Aðeins eru keppnisleikir teknir með en Ronaldo hefur raðað inn mörkum fyrir Juve, Manchester United, Real Madrid og portúgalska landsliðið.

Ronaldo er talinn hafa komist yfir framherja að nafni Josef Bican með markinu gegn Napoli en samkvæmt tékknenska sambandinu er það ekki rétt.

Sambandið gaf út yfirlýsingu í gær þar sem haldið er fram að Bican hafi skorað 821 mark í keppnisleikjum á ferlinum frekar en 759.

Bican er fæddur árið 1913 en hann lést árið 2001 þá 88 ára að aldri. Hann er þekktastur fyrir tíma sinn hjá Sparta Prague í Tékklandi.

Sambandið segist hafa sannanir fyrir því að Bican hafi skorað fleiri mörk en 759 og mun reyna að sanna það á næstu vikum.

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner