Spænski markvörðurinn Pepe Reina tjáði sig um mál Vinicius Junior í viðtali við Marca í dag en þar ræðst hann á fórnarlambið.
Reina spilaði sinn þúsundasta leik á ferlinum á dögunum en hann eyddi sínum bestu árum hjá Liverpool frá 2005 til 2014.
Kynþáttafordómar í La Liga hafa verið í deiglunni að undanförnu og þá sérstaklega í garð Vinicius Junior.
Stuðningsmenn liða hafa ítrekað beitt hann kynþáttaníði síðustu ár og er Vinicius kominn með nóg. Hann var eini leikmaðurinn sem var rekinn af velli gegn Valencia þrátt fyrir að Hugo Duro, leikmaður Valencia, hafi tekið hann í höfuðlás.
Javier Tebas, forseti La Liga, réðst strax á Vinicius á samfélagsmiðlum þegar sá brasilíski sagði að La Liga tilheyrði rasistum, en hann baðst síðar afsökunar á ummælum sínum.
Reina segir að Vinicius þurfi að þroskast.
„Vinicius? Því minna sem þú ögrar stuðningsmönnum andstæðingsins og mótmælir við dómarann, því meiri virðingu færðu frá öllum. Hann er að verða einn af bestu leikmönnum heims en hann verður að þroskast og bera meiri virðingu fyrir andstæðingnum,“ sagði Reina við Marca.
Þessi ummæli ættu ekki að koma á óvart miðað við sögu Reina en hann hefur lengi stutt við öfgahægri flokka sem spúa hatri og fordómum í garð innflytjenda.
Reina spilaði með Lazio frá 2020 til 2022 og var tekið á móti honum þar með fasistakveðju vegna tengsla hans við öfgahægri flokkinn Vox.
Athugasemdir