"Mér fannst við byrja frábærlega. Ég sagði svo við einhvern á bekknum eftir 20 mínútur að það gæti verið svolítið dýrt að vera ekki búnir að skora með þessa yfirburði á vellinum svo það var blaut tuska í andlitið að fá þetta fyrsta mark á sig," sagði Davíð Örn Atlason, leikmaður Víkings, eftir 3-1 tap gegn Blikum í kvöld.
Lestu um leikinn: Breiðablik 3 - 1 Víkingur R.
Þrátt fyrir tapið í kvöld eru Víkingar Íslandsmeistarar árið 2023 og munu því ekki svekkja sig á tapinu of lengi.
"Nei en samt hefði maður viljað fagna með stuðningsmönnunum eftir sigur. Það var svolítið skrítið að fagna titlinum með stuðningsmönnum eftir tapleik. En við erum verðugir Íslandsmeistarar."
Davíð Örn fór frá Víkingi til Breiðabliks fyrir tímabilið 2021 og horfði upp á uppeldisfélagið sitt vinna titilinn. Hann var síðan aftur kominn til Víkings þegar Blikar urðu meistarar í fyrra. Hann hefur því séð á eftir titlinum tvö seinustu tímabil og því sætt að vinna þann stóra loksins í ár.
"Það var sárt að horfa upp á Víking lyfta titlinum á sínum tíma en ég ber engar tilfinningar til Breiðabliks svo það var ekkert verra en að horfa á eitthvað annað lið vinna. En nú get ég loksins farið sáttur í gröfina að vera búinn að vinna þennan titil. Árangur gerir mann samt þyrstan í meiri árangur."
Davíð á ekki von á því að liðið komi saman og fagni titlinum í kvöld. "Ég bara veit það ekki. Það er leikur á fimmtudag og ég er að fara að kenna 2. bekk í Fossvogsskóla klukkan 8:30 í fyrramálið."