Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
   sun 26. september 2021 17:29
Brynjar Ingi Erluson
England: Arsenal afgreiddi Tottenham í fyrri hálfleik
Bukayo Saka skoraði og lagði upp gegn Tottenham
Bukayo Saka skoraði og lagði upp gegn Tottenham
Mynd: EPA
Arsenal 3 - 1 Tottenham
1-0 Emile Smith-Rowe ('12 )
2-0 Pierre Emerick Aubameyang ('27 )
3-0 Bukayo Saka ('34 )
3-1 Son Heung-Min ('79 )

Arsenal bætti við sig þremur stigum er liðið vann 3-1 sigur á Tottenham í Norður-Lundúnarslag í ensku úrvalsdeildinni í dag en öll mörk heimamanna komu í fyrri hálfleik.

Fyrsta markið kom á 12. mínútu leiksins. Martin Ödegaard fann Bukayo Saka hægra megin við teiginn, sem tók gabbhreyfingu áður en hann lagði boltann inn í teig á Emile Smith-Rowe sem kláraði af yfirvegun.

Þremur mínútum síðar átti Thomas Partey fínasta skot sem Hugo Lloris varði vel. Arsenal bætti svo við öðru marki á 27. mínútu en að þessu sinni var það Pierre Emerick Aubameyang.

Aaron Ramsdale átti lélega sendingu frá sér en vörn Arsenal vann úr því og úr varð góð sókn Arsenal. Aubameyng átti skemmtilega sendingu á Smith-Rowe sem lagði hann aftur fyrir framherjann í teignum. Aubameyng átti laust skot sem fór í hægra hornið og staðan 2-0.

Saka gerði þriðja markið sjö mínútum síðar. Harry Kane tapaði boltanum fyrir utan teig Arsenal og keyrðu heimamenn fram völlinn. Saka fékk boltann hægra megin við teiginn, ætlaði að koma honum á samherja, en fékk boltann aftur og skoraði framhjá Lloris.

Kane var nálægt því að minnka muninn stuttu síðar en skalli hans fór rétt framhjá eftir hornspyrnu.

Heimamenn vildu fá vítaspyrnu á 54. mínútu. Gabriel féll í teignum eftir viðskipti sín við Davinson Sanchez en ekkert dæmt. Mikel Arteta, stjóri Arsenal, ósáttur við dómgæsluna.

Kane átti ágætis færi á 60. mínútu en Ramsdale sá við honum í markinu og fagnaði eins og hann hefði skorað mark. Gleðin var mikil hjá heimamönnum og léttara yfir þeim en í byrjun tímabils.

Heung-Min Son minnkaði muninn á 79. mínútu. Bryan Gil og Sergio Reguilon spiluðu sín á milli áður en boltinn barst til Son. Skot hans fór af leikmanni Arsenal og í netið.

Lucas Moura fékk þá dauðafæri í uppbótartíma en Ramsdale, sem var fínn í þessum leik, varði vel. Lokatölur 3-1 á Emirates-leikvanginum. Stór sigur Arsenal sem er nú komið í 10. sæti með 9 stig og með fleiri mörk skoruð en Tottenham sem eru í 11. sætinu með jafnmörg stig.
Athugasemdir
banner
banner
banner