Íslandsmeistarar Víkings unnu í dag hlutkesti UEFA að halda umspil fyrir forkeppni Meistaradeildar Evrópu í sumar en Levadia Tallin frá Eistlandi hafði einnig óskað eftir því.
Dregið verður í umspilið 7. júní næstkomandi. Undanúrslitaleikirnir fara fram 21. júní og úrslitaleikurinn 24. júní. Ljóst er að undanúrslitaleikur Víkinga og úrslitaleikurinn verða spilaðir á Víkingsvelli en þar sem undanúrslitaleikirnir fara fram sama dag verður hinn leikurinn spilaður á öðrum velli. Þó er ljóst að sá völlur verður gervigrasvöllur á Íslandi.
Íslensk félagslið hafa hrapað niður styrkleikalistann hjá UEFA og nú er svo komið að við eigum bara 3 Evrópusæti en ekki 4 eins og áður. Þá komast íslensku liðin ekki beint í forkeppni Meistaradeildarinnar heldur þarf að spila umspilið.
Í umspilinu eru fjórar neðstu þjóðir Evrópu með lið, Víkingur frá Íslandi, Levadia Tallin frá Eistlandi auk meistaraliða frá Andorra og San Marino. Leikið er í undanúrslitum og úrslitum. Liðið sem vinnur úrslitaleikinn fer í forkeppni Meistaradeildarinnar en hin þrjú liðin fara í Sambandsdeildina.
Úrslitaleikurinn í Meistaradeildinni á næsta tímabili verður haldinn í Istanbúl í Tyrklandi.