Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   fös 30. apríl 2021 18:00
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Spá Fótbolta.net fyrir Pepsi Max-deild kvenna: 2. sæti
Breiðablik
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Agla María
Agla María
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Tiffany og Villi þjálfari
Tiffany og Villi þjálfari
Mynd: Knattspyrnudeild Breiðabliks
Áslaug Munda
Áslaug Munda
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hildur Þóra Hákonardóttir
Hildur Þóra Hákonardóttir
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Keppni í Pepsi Max-deild kvenna hefst 4. maí næstkomandi. Fótbolti.net mun næstu dagana opinbera spá fyrir deildina í sumar en liðin verða kynnt eitt af öðru næstu dagana.

Spáin:
1. ?
2. Breiðablik
3. Fylkir
4. Selfoss
5. Þór/KA
6. Þróttur R.
7. Stjarnan
8. ÍBV
9. Keflavík
10. Tindastóll

2. Breiðablik

Lokastaða í fyrra: Breiðablik varð Íslandsmeistari í fyrra, vann fjórtán leiki, tapaði einum leik og fékk á sig þrjú mörk. Liðið endaði með tveimur stigum meira en Valur en átti auk þess leik til góða. Eina tap liðsins kom gegn Selfossi. Liðið skoraði 66 mörk og endaði Agla María Albertsdóttir markahæst ásamt Sveindís Jane Jónsdóttur með fjórtán mörk. Berglind Björg Þorvaldsdóttir skoraði þá tólf mörk.

Þjálfarinn: Vilhjálmur Kári Haraldsson tók við af Þorsteini Halldórssyni í vetur þegar Steini tók við A-landsliðinu. Vilhjálmur lék með Breiðabliki og Dalvík á sínum leikmannaferli. Breiðablik er hans annað lið sem hann þjálfar sem aðalþjálfari. Hann var þjálfari Augnabliks tímabilin 2019 og 2020.

Álit Jóa
Jóhann Kristinn Gunnarsson er sérfræðingur Fótbolta.net í Pepsi Max-deild kvenna líkt og síðustu ár. Hér er álit hans á liði Breiðabliks.

„Ríkjandi meistarar hafa gengið í gegnum talsverðar breytingar frá í fyrra. Nýr þjálfari og nýir leikmenn sem koma inn. Sterkir leikmenn hafa haldið í atvinnumennskuna erlendis og stór skörð sem þarf að fylla. Þó þjálfarinn sé nýr þá þekkir hann Breiðablik vel og umhverfið í Kópavoginum. Sigurhefðin fer ekkert úr starfinu og það er skýr og klár krafa að keppa um titlana."

Alveg tilbúnar að halda kyndlinum hátt á lofti
„Grunnurinn er sterkur enda ofboðsleg flóra af efnilegum og góðum leikmönnum í Breiðabliki. Ungar stelpur sem hafa verið að taka sín fyrstu skref síðustu ár verða í enn stærra hlutverki í ár enda reynslunni ríkari. Í Breiðabliki eru stelpur í öllum stöðum sem þekkja fátt annað en að keppa í efstu sætunum upp alla yngri flokka og það er alveg klárt að þó þekkt nöfn hafi horfið á braut þá eru leikmenn sem fylla þau skörð alveg tilbúnir í að halda kyndlinum hátt á lofti.."

„Þær hafa fengið til sín sterka leikmenn sem eiga eftir að hjálpa mikið til. Það er klókt að fá Þórdísi Hrönn, Karitas Tómasdóttur og Tiffany McCarty, ásamt auðvitað fleirum. Þær færa liðinu gæði og falla vel að sigurvilja Blika. Þær eiga eftir að þétta raðirnar hjá liðinu ásamt ungum stelpum í bland við þær sem meiri reynslu hafa."

„Liðið skoraði ævintýralega mikið af mörkum í fyrra, eða 66 mörk og fengu aðeins 3 á sig. Nú verður spennandi að sjá hvernig liðið leysir markaskorunina í ár en rúmlega tvo þriðju markanna í fyrra skoruðu Berglind Björg, Alexandra, Sveindís Jane, Karólína Lea og Rakel Hönnu. Eða 45 af 66 mörkum liðsins. Svo verður gaman að sjá Telmu spreyta sig í markinu hjá þeim enda hörkunagli með mikið keppnisskap."

„Baráttan um titilinn stóra verður eflaust hörð í ár og það er alveg ljóst að Breiðablik er með lið sem getur keppt um bikarinn eftirsótta."


Lykilmenn: Agla María Albertsdóttir, Karitas Tómasdóttir og Tiffany McCarty

Gaman að fylgjast með: Áslaug Munda Gunnlaugsdóttir er rísandi stjarna sem þegar hefur vakið mikla athygli, enda frábær leikmaður. Bergþóra Sól Ásmundsdóttir og Hildur Þóra Hákonardóttir fá enn stærri hlutverk en í fyrra og verða áberandi í sumar.

Komnar:
Ásta Vigdís Guðlaugsdóttir frá Keflavík (Var á láni)
Birta Georgsdóttir frá FH
Ísafold Þórhallsdóttir frá Augnabliki (Var á láni)
Karitas Tómasdóttir frá Selfoss
Telma Ívarsdóttir frá FH (Var á láni)
Tiffany McCarty frá Selfossi
Þórdís Hrönn Sigfúsdóttir frá KR
Þórhildur Þórhallsdóttir frá Augnabliki (Var á láni)

Farnar:
Alexandra Jóhannsdóttir í Eintracht Frankfurt
Andrea Rán Snæfeld Hauksdóttir til Le Havre (á láni)
Berglind Björg Þorvaldsdóttir til Le Havre
Elín Helena Karlsdóttir í Keflavík (á láni)
Esther Rós Arnarsdóttir í FH
Guðrún Gyða Haraldz í Þrótt
Íris Dögg Gunnarsdóttir í Þrótt
Karólína Lea Vilhjálmsdóttir til Bayern Munchen
Sonný Lára Þráinsdóttir hætt
Sólveig Jóhannesdóttir Larsen í Val
Sóley María Steinarsdóttir í Þrótt
Sveindís Jane jónsdóttir í Keflavík (Var á láni)

Sjá einnig
Hin Hliðin - Telma Ívarsdóttir
Athugasemdir
banner
banner
banner