Man Utd líklegast að fá Olise - Man Utd til í að hlusta á tilboð í Rashford - Juve leiðir kapphlaupið um Greenwood
   fös 11. júlí 2008 07:00
Hafliði Breiðfjörð
Þórir Hákonarson: Brá við að sjá ummæli Jónasar
Þórir Hákonarson.
Þórir Hákonarson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jónas Hallgrímsson.
Jónas Hallgrímsson.
Mynd: Fótbolti.net - Magnús Már Einarsson
Mynd: Getty Images
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Fótbolti.net - Gísli Baldur
,,Mér brá við að sjá þetta og mér fannst þetta dapurleg ummæli, mörg sem komu þarna fram,” sagði Þórir Hákonarson framkvæmdastjóri KSÍ í viðtali við Fótbolta.net þegar við spurðum hann út í ummæli Jónasar Hallgrímssonar fráfarandi þjálfara Völsungs í viðtali við Fótbolta.net á þriðjudag.

,,Auðvitað eru dómaramál og dómgæsla alltaf í umræðunni og það verður engin breyting á því. En það er alltaf verið að vinna í því að bæta dómgæsluna í öllum deildum. Það eru ýmis önnur ummæli og ásakanir þarna sem ég hef ekki heyrt áður. Það koma þarna fram ásakanir sem eru órökstuddar og það er ekkert á bakvið þær. Það er erfitt að eiga við slík ummæli og slíkar ásakanir.”

Í viðtalinu talaði Jónas um að eftirlitsdómarar séu of tengdir dómurunum sjálfum sem þeir eiga að hafa eftirlit með og stundum komi þeir meira að segja með þeim í bíl. Hvernig svarar Þórir því?

,,Auðvitað kemur það fyrir að það gerist og það er í sjálfu sér ekkert óeðlilegt við það, en samt sem áður hafa þeir eftirlitsdómarar sem hafa farið á leikina verið duglegir að senda inn skýrslur og athugasemdir.” sagði Þórir. ,,Ef það eru verulegar athugasemdir við dómgæsluna þá er það kannað og rætt við viðkomandi dómara. Auðvitað er það svo í þessum efnum eins og öllum öðrum að það er verið að bæta úr með aukinni fræðslu og að fá fleiri menn sem geta komið að þessu starfi.”

Jónas talar einnig um það í viðtalinu að þegar úrvalsdeildardómarar komi og dæmi leiki í 2. deildinni þá dæmi þeir ekki eins vel og í Landsbankadeildinni þar sem þeir séu með eftirlitsmenn og fái aðhald í sjónvarpsupptökum. Er það rétt að KSÍ sendi ekki eftirlitsdómara á leiki úrvalsdeildardómara í 2. deild?

,, Nei, það er ekki rétt. Það eru eftirlitsmenn á leikjum í 2. deild í nær öllum tilvikum, held að nú hafi 4 leikir farið fram af ríflega 50 þar sem ekki var eftirlitsdómari en auðvitað er reynt að hafa þá á öllum leikjum. Við fáum líka athugasemdir frá öðrum ef dómgæsla hefur verið slök eða dómari hefur átt slæman dag. Þá er reynt að taka á því,” sagði hann.

En hvernig er dómurum refsað ef þeir eru ekki að standa sig og KSÍ fær rökstuðning fyrir slíku í skýrslu eftirlitsmanns?

,,Við höfum rætt við dómara um hvað má fara betur í þeirra fari. Dómurum er líka raðað niður í ákveðna flokka og dómarar sem ekki standa sig vel, færast ekki upp um flokka og fá þar af leiðandi ekki verkefni á hærra stigi.”

Dómurum er hinsvegar ekki skipt á milli flokka í hverri viku heldur er það eitthvað sem yfirleitt gerist fyrir komandi leiktíð á vorin. Hvað ef dómari stendur sig ekki í einum eða fleiri leikjum á miðju tímabili, til hvaða ráðstafana grípur KSÍ þá?

,,Ef það koma athugasemdir við dómgæsluna þá er tekið á því og farið yfir með honum hvað má betur fara,” sagði Þórir en hefur það komið fyrir að dómarar hafi verið færðir niður um deild eða verið refsað á annan hátt?

,,Dómararnir sem eru í neðri deildunum hafa þá kannski fengið færri leiki en ella en það er fyrst og fremst farið yfir málin, hvort viðkomandi dómari sé að gera rangt og hvað má bæta. Við erum alltaf að reyna að fylgjast með því hvernig dómararnir standa sig en auðvitað má gera betur í ýmsum efnum í þessu eins og öllu öðru.”

Jónas kom einnig inn á dómara frá norðurlandi sem hann gaf ekki háa einkunn. Við spurðum Þóri hvort það væri algengt að menn dæmdu hjá liðum úr nágrannasveitarfélögum og hvort það væri ekki slæmt, sérstaklega ef einhver rígur er á milli.

,,Það er allur gangur á því hvort dómarar séu frá nágrannasveitarfélögum, auðvitað eru dómarar frá norðurlandi líka að dæma hjá norðanliðum, það segir sig sjálft. Ég tel að það sé ekkert óvenjulega mikið og treysti dómurum til að taka á því ef um einhvern ágreining eða ríg á milli staða er að ræða. Ég hef enga trú á því að dómararnir séu vísvitandi að dæma öðru liðinu í óhag.”

Í viðtalinu við Jónas sagðist hann hafa lent í KSÍ áður og þá hafi þeim verið hótað að ef þeir héldu ekki kjafti þá muni KSÍ sjá til þess að fótboltinn á Húsavík ætti sér ekki viðreisnar von. Þórir segist ekki kannast við hvað Jónas er að vísa til í þessu tilfelli.

,,Þetta er mjög alvarleg ásökun og ég veit ekkert hvað viðkomandi hefur fyrir sér í þessu máli,” sagði Þórir.

,,Við erum að sinna grasrótarstarfi, fræðslustarfi og öðru út um allt land og höfum verið að auka undanfarið. Eftir stendur ásökun sem stendur á alla starfsmenn Knattspyrnusambandsins sem vinna heiðarlega að framgangi knattspyrnunnar á Íslandi og er algjörlega órsökstudd um að einhver þeirra hafi hótað að leggja niður knattspyrnuna á viðkomandi stað. Það er erfitt að svara svona ásökun, þetta er algjörlega út í bláinn og órökstutt. “

Þórir sjálfur hefur verið framkvæmdastjóri hjá KSÍ á annað ár en áður en hann kom þangað hafði hann starfað við knattspyrnuna hjá KS á Siglufirði sem er lítið félag úti á landi sem hefur verið í neðri deildunum. Hann hafði ekki sömu sögu að segja og Jónas eftir sína reynslu þar.

,,Af því sem ég kynntist af þeim störfum mínum gat ég aldrei séð að það væri hallað vísvitandi á annað liðið. Auðvitað áttu dómararnir mismunandi daga eins og oft gerist og ég var ekkert sáttur við dómarana í öllum leikjum. Viðkomandi dómari hefur þá gert mistök í leiknum og ráðið illa við verkefnið en mér datt aldrei í hug að hann væri vísvitandi að halla á annað hvort lið.”

,,Ef ég var ósáttur þá kom það fyrir að ég ræddi við eftirlitsmanninn um málið og þar með var málið frá. Ég kom minni skoðun þannig á framfæri.”

Að lokum spurðum við Þóri út í hvað sambandið geri til að bæta úr málum í dómgæslu sem að sjálfsögðu er nauðsynlegur hluti af knattspyrnunni en er alltaf umdeild.

,,Það er að sjálfsögðu verið að vinna markvisst að því hörðum höndum að bæta dómgæslu, fjölga dómurum og auka gæðin,” sagði hann. ,,Við höfum verið að halda mun fleiri námskeið en oft áður. Bæði unglingadómaranámskeið og héraðsdómara námskeið. Við höfum líka fengið til liðs við okkur menn sem hafa verði að fylgjast með dómurum, fyrrverandi dómara sem eru hættir störfum. Jafnframt höfum við verið að fara yfir hlutverk eftirlitsdómara og hvernig þeir geta unnið sitt starf sem allra best”

,,Þá höfum við sótt um að gerast aðilar að dómarasáttmála UEFA sem þýðir að við þurfum að uppfylla ákveðin skilyrði. Við erum að vinna að því að bæta dómgæsluna, fjölga dómurum og auka gæði dómgæslunnar. Þetta höfum við gert í samráði við dómarana sjálfa og félögin. UEFA hefur komið hingað til okkar og fylgst með dómurum á okkar vegum, skipulagi dómgæslunnar og slíkt. Það er markvisst unnið að því að gangast undir öll þau skilyrði til að gera okkur kleift að vera aðilar að þessum sáttmála,”
sagði hann að lokum.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner