Man City setur verðmiða á Cancelo - Simons eftirsóttur - Lille hafnar Liverpool
   þri 12. apríl 2011 10:00
Benedikt Bóas Hinriksson
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Gömlu brýnin sem verða flott í sumar
Benedikt Bóas Hinriksson
Benedikt Bóas Hinriksson
Ég á afmæli í dag. Þrítugur, takk fyrir. Ég er ekkert hræddur við aldurinn. Finnst bara fínt að vera orðinn svona gamall. Maður er jú reyndari og gáfaðri en maður var þegar maður var yngri.

Í gær las ég grein hér á .net eftir Hörð Snævar (sem af einhverjum furðulegum ástæðum hefur ekki enn tekið upp nafnið Snævarr) um hverjir séu líklegir að slá í gegn í Pepsi-deildinni í sumar.

Á þessum lista voru bara ungir guttar, einhverjir sem eru yngri en Spaugstofan og voru ekki fæddir þegar Rambó og Commando komu út. Í tilefni dagsins ætla ég því að taka það saman hverjir ég held að muni spjara sig í sumar og verða bestir af leikmönnum 30 ára og eldri.

Bjarni Guðjónsson, KR (1979)
Ég er mikill aðdáandi Bjarna og hef alltaf gríðarlega trú á að hann verði bestur. Vona að ég verði ekki fyrir vonbrigðum í sumar.

Ómar Jóhannsson, Keflavík (1981)
Ómar var með mér í knattspyrnuskóla KSÍ á Laugarvatni fyrir 100 árum og þá sá ég fyrst hvað hann var ógeðslega góður. Það hefur ekkert breyst. Tippa að hann verði í formi í sumar og verji eins og berserkur. Svo er hann líka með tattoo á hálsinum!

Guðmundur Steinarsson, Keflavík (1979)
Elska að horfa á Gumma Steinars spila fótbolta þegar hann er í stuði. Vona að hann sé og verði í stuði - lítur út fyrir að ég muni fylgjast vel með Keflavík í sumar.

Atli Viðar Björnsson, FH (1980)
Alltaf flottur. Nýtir færin betur en flestir. Hef trú á að hann skori mörkin sem tryggi FH titilinn í sumar.

Guðmundur Sævarsson, FH (1978)
Eini bakvörðurinn á Íslandi sem maður borgar sig inn til að horfa á. Gerir flókna hluti en lætur þá líta svo einfalt út.

Gunnleifur Gunnleifsson, FH (eldgamall)
Besti og skemmtilegasti markvörður landsins. Toppmaður sem verður í toppformi í sumar. Það er gefið. Verður að vera á þessum lista.

Hólmar Örn Rúnarsson, FH (1981)
Vó... fjórir frá FH. Jæja, það verður að vera þannig. Bói (hefur einhver fengið skýringar á því af hverju hann er kallaður það?) var slakur í fyrra. Kominn í Hafnarfjarðarstórveldið og verður kóngurinn á miðjunni. (sagði reyndar í fyrra að hann yrði valinn maður mótsins - það gekk ekki eftir).

Gylfi Einarsson, Fylki (1978)
Menn eru að tala um að hann gæti verið heill. Vona það. Hef sjaldan öskrað jafn hátt og þegar hann skoraði á móti Ítölum.

Atli Sveinn Þórarinsson, Valur (1980)
Elska að sjá Atla spila vörn. Hann er svo góður. Hef trú á honum og hann leiði Val á sigurbraut á afmælisári Vals.

Sigurbjörn Hreiðarsson, Valur (1975)
Verður í einhvers konar Materazzi hlutverki hjá Val. Gríðarlega mikilvægt fyrir alla Valsmenn að hafa Bjössa í liðinu og í kringum það. Verður kannski ekki bestur en hann á eftir að gera góða hluti - sannið þið til.

Tryggvi Guðmundsson, ÍBV (1974)
Tryggvi verður góður í sumar, það er klárt mál. Skorar fullt og leggur upp enn fleiri. Gömul saga en djöfull er hann góður í fótbolta. Fáir jafn góðir og TG9 í deildinni.

Helgi Sigurðsson, Víkingur (1974)
Hvað er vitað í heiminum? Himininn er blár, vatnið er blautt og Helgi Sig mun skora mörk.

Það eru fleiri reynsluboltar sem vert er að fylgjast með í sumar. Scott Ramsey mun örugglega skora flottasta mark sumarsins, Daði Guðmundsson er Gary Neville Framara og með númerið hjá Sveini Andra, fróðlegt verður að sjá hvernig Garðar Jóhannsson kemur inn í þetta, Grétar Ólafur Hjartarson nær vonandi að láta ljós sitt skína og svo mætti áfram telja...

Rosalega hlakka ég til að þetta byrji!
banner
banner