Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
   lau 01. ágúst 2020 11:30
Ívan Guðjón Baldursson
Lampard: Þetta er risastór leikur fyrir Chelsea
Mynd: Getty Images
Frank Lampard, knattspyrnustjóri Chelsea, freistar þess að verða fyrsti enski stjórinn til að vinna stóran titil með Chelsea síðan 1971 er hann leiðir sína menn til bardaga gegn Arsenal í úrslitaleik FA bikarsins í dag.

Mikið hefur verið rætt um viðureignina og sagt að hún sé mikilvægari fyrir Arsenal en Lampard er ekki sammála því. Arsenal missti af Evrópusæti og er úrslitaleikurinn því síðasta tækifæri liðsins til að komast í Evrópudeildina.

Chelsea er búið að tryggja sér sæti í Meistaradeild Evrópu og telur Lampard mikilvægt að fólk átti sig á því að félagið hafi ekki áorkað neinu sérstöku þegar það tryggði sér sæti meðal fjögurra efstu liða úrvalsdeildarinnar.

„Ég hef heyrt að það sé meira undir hjá Arsenal en okkur og það truflar mig. Við verðum að setja pressu á sjálfa okkur, þetta er risastór leikur fyrir Chelsea," sagði Lampard.

„Það veldur mér áhyggjum að við, sem lið, höldum að við höfum áorkað einhverju í síðustu viku með því að ná Meistaradeildarsæti. Við erum ánægðir með það en það er í fortíðinni. Við munum ekki pæla í hvað þessi leikur þýðir fyrir Arsenal, við munum gera okkar besta til að vinna.

„Ég spilaði fótbolta í mörg ár og veit hvaða tilfinningar fylgja því að fara í úrslitaleik. Það verður að vera pressa á leikmönnum, maður tapar ef maður mætir þægilegur í úrslitaleikinn. Tilfinningarnar sem knattspyrnustjóri eru meiri heldur en sem leikmaður. Það er verra að tapa því þú tekur meiri ábyrgð á þig en aftur á móti er betri tilfinning sem fylgir því að vinna leiki."


Willian og N'Golo Kante verða í leikmannahópi Chelsea í dag og ræddi Lampard aðeins um Willian, sem er á leið burt frá félaginu á frjálsri sölu eftir 339 leiki á sjö árum.

„Hann hefur verið stórkostlegur fyrir félagið og sérstaklega á þessari leiktíð. Hann er alltaf með rétt hugarfar og ég býst ekki við öðru en að hann muni standa sig í dag."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner