banner
   mið 03. júní 2020 08:00
Ívan Guðjón Baldursson
Jorge Jesus framlengir við Flamengo - Sjöundi besti þjálfari heims
Mynd: Getty Images
Brasilíska félagið Flamengo er búið að framlengja samning þjálfarans Jorge Jesus um eitt ár.

Jesus er langlaunahæsti þjálfari brasilíska boltans og fær hann í kringum fjórar milljónir evra í árslaun fyrir bónusgreiðslur.

Globo Esporte greinir frá því að í samningnum sé sérstakt ákvæði sem geri Jesus kleift, ef tækifæri býðst, að taka við félagi í Evrópu fyrir ákveðna upphæð.

Jesus hefur gert frábæra hluti með Flamengo og vann bæði brasilísku deildina og suður-amerísku Meistaradeildina (Libertadores) á sínu fyrsta ári. Þá rétt tapaði Flamengo fyrir Liverpool í úrslitaleik HM félagsliða síðasta desember.

Jesus gerði garðinn frægan í portúgalska boltanum og vann titla við stjórnvölinn hjá Benfica, Braga og Sporting CP áður en hann tók við Al-Hilal í Sádí-Arabíu.

Portúgalski þjálfarinn er 65 ára gamall og sagður vera næstefstur, eftir Mauricio Pochettino, á óskalista Newcastle ef eigendaskiptin umtöluðu ganga í gegn.

Jesus hefur þrisvar sinnum verið valinn besti þjálfari portúgölsku deildarinnar og er í sjöunda sæti á lista IFFHS yfir bestu þjálfara heims.
Athugasemdir
banner
banner
banner