
Njarðvík bjargaði sér frá falli úr Lengjudeildinni í haust og er búið að semja við lykilleikmann sinn Oumar Diouck, sem skoraði 10 mörk í 21 deildarleik í ár.
Samkvæmt heimildum Fótbolta.net var Oumar eftirsóttur en Njarðvíkingar lögðu mikla áherslu á að semja við þennan öfluga sóknarmann.
Hinn 29 ára gamli Oumar gerði þriggja ára samning við Njarðvík, út keppnistímabilið 2026.
Hann var algjör lykilmaður í 2. deildinni í fyrra, þar sem 16 mörk í 22 leikjum hjálpuðu Njarðvík upp um deild. Þá átti hann lykilþátt í að bjarga liðinu frá falli í ár.
Oumar hefur skorað 39 mörk í 62 leikjum í treyju Njarðvíkur en þar áður lék hann fyrir KF í 2. deildinni.
„Það er sannarlega mikið gleðiefni að halda Oumar áfram í herbúðum Njarðvíkur til ársins 2026 og óskar Knattspyrnudeildin Oumar til hamingju með nýja samninginn," segir meðal annars í tilkynningu frá Njarðvík.
Athugasemdir