„Þetta var leikur kjánalegra mistaka, það skemmdi fyrir okkur í fyrri hálfleiknum að lenda svona snemma undir," sagði Age Hareide þjálfari íslenska landsliðsins eftir 3 - 1 tap gegn Tyrklandi í Izmir í kvöld.
Lestu um leikinn: Tyrkland 3 - 1 Ísland
„Við erum ekki vanir að gera þetta en svona gerist stundum í leikjum. Við sýndum samt góðan karakter með því að koma til baka og jafna. Svo lendum við 2-1 undir og eftir það áttum við líka góðan kafla og hefðum geta jafnað. Það var okkar besti kafli í leiknum," hélt hann áfram.
„Því miður vorum við ekki nógu góðir varnarlega í dag eins og við erum vanalega. Við verðum að halda áfram að vinna í því. Það er í okkar eigin höndum næst þegar við eigum Tyrkland og Wales heima."
Lætin í stuðningsmönnum voru yfirgnæfandi í Tyrklandi í kvöld en truflaði það íslenska liðið?
Nei, alls ekki, þetta er gott andrúmsloft til að spila fótbolta í. Það skiptir engu máli. Mér fannst margir leikmenn verða þreyttir þegar leið á leikinn Við lendum alltaf í vandræðum í seinni leikjunum okkar og við verðum að reyna að leysa það."
Geturðu tekið eitthvað jákvætt úr leiknum?
„Já algjörlega, karakterinn var mjög góður og þeir héldu áfram að berjast."
Athugasemdir