Rúnar Páll Sigmundsson, þjálfari Fylki, var stoltur af sínum mönnum þrátt fyrir 2-0 tapið gegn Víkingum í 2. umferð Bestu deildarinnar í dag en Fylkismenn eru án sigurs úr fyrstu tveimur leikjunum.
Lestu um leikinn: Víkingur R. 2 - 0 Fylkir
Fylkismenn áttu sína kafla í leiknum. Veðuraðstæður voru erfiðar til að spila góðan fótbolta en hann var sérstaklega ánægður með frammistöðuna í þeim síðari.
„Mér fannst við vera bara fínir í þessum leik. Varnarlega vorum við fínir og í seinni hálfleik settum við pressu á þá og þeir komust varla yfir miðju. Við reyndum að skora á þá og fengum fínar sóknir og fína möguleika en þeir vörðust vel Víkingarnir.“
„Mér fannst við fá ódýr mörk á okkur og þeir fá varla opin færi í leiknum. Birnir skoraði frábært mark og vel gert hjá honum og voru sennilega að tvöfalda hjálparvörnina og svo kemur skot fyrir utan teig og enginn stígur upp í seinna markinu þegar við eigum að stíga upp í horninu. Einn sem situr eftir og gerir Ekroth réttstæðan. Lítil mistök en Víkingur skapaði ekkert einasta færi. Ég er stoltur af varnarleiknum og hugarfarinu. Við reyndum hvað við gátum og á erfiðum útivelli og ég er stoltur af drengjunum. Við mætum tvíefldir í næsta leik.“
Fylkismenn náðu ekki að opna Víkinga, sama hvað liðið reyndi, en það vantaði herslumuninn í dag.
„Þeir vörðust vel í teignum og við reyndum hvað við gátum að höggva í gegnum línurnar, fyrirgjafir og annað slíkt. Fengum tvö ágætis færi á móti þeim sem Ingvar varði reyndar mjög vel en það vantaði herslumuninn.“
Fylkismenn eru eins og áður segir án sigurs úr fyrstu tveimur leikjunum en hann segir ekki vera nein þörf á sigri þó það væri betra að ná í einn.
„Við þurfum ekkert sigur en það væri betra að fá sigur. Við viljum vinna alla leiki annars værum við ekki í þessu. FH-ingar eru að koma til okkar og við ætlum að vinna þá þar,“ sagði Rúnar Páll.
Athugasemdir